144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[15:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum. Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæði til bráðabirgða VI í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Í ákvæði til bráðabirgða VI er kveðið á um frávik frá ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna sem heimilar leyfilegan mun milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga lífeyrissjóða. Ákvæðinu var bætt við lögin í kjölfar hrunsins með lögum nr. 171/2008 þar sem lífeyrissjóði var heimilað að hafa allt að 15% mun, í stað 10% munar, milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga vegna lífeyris miðað við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2008. Sú heimild var síðar framlengd fyrir árin 2009 og 2010. Þá var einnig mælt fyrir um frávik frá fimm ára reglunni í 2. mgr. 39. gr. laganna þannig að miða mætti við 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga í stað 5%.

Með lögum nr. 156/2011, um breytingu á lögum nr. 129/1997, var heimilað að vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða í ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum yrðu áfram 15% í stað 10% út árið 2011, en að vikmörkin yrðu lækkuð í þrepum á næstu þremur árum uns 10% mörkunum yrði náð árið 2014.

Með ákvæðinu var lífeyrissjóði því heimilað að hafa allt að 15% mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga vegna lífeyris miðað við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2011, allt að 13% mun fyrir árið 2012 og allt að 11% mun fyrir árið 2013 án þess að honum væri gert skylt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins. Þá var fimm ára tímabilið í 2. mgr. 39. gr. framlengt um eitt ár með lögum nr. 106/2013, þ.e. í sex ár frá og með árinu 2008.

Þess má geta að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, LSR, var rekin með -11,7% mun á árinu 2013 og er því utan leyfilegra marka. Þá var A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga, LSS, rekin með -12,5% mun á árinu 2013. Nái fram komin tillaga um breytingu á ákvæðinu ekki fram að ganga hefur það í för með sér að stjórnum sjóðanna ber að hækka framlag launagreiðenda fyrir 1. október næstkomandi, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. laga nr. 1/1997, um LSR, og 31. gr. samþykkta LSS.

Í frumvarpinu eru því lagðar til þær breytingar á ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum að skv. a-lið 1. gr. verði lífeyrissjóði heimilað að hafa allt að 13% mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2013 í stað 11%. Í b-lið 1. gr. er lagt til að heimilt verði að miða við 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga samfellt í sjö ár frá og með árinu 2008. Því er í frumvarpinu lagt til að árinu 2014 verði bætt við upptalninguna í núgildandi ákvæði til bráðabirgða. Að lokum er í c-lið greinarinnar lagt til að sjöunda árinu verði bætt við. Í núgildandi ákvæði er kveðið á um að heimilt sé að hafa 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga samfellt í allt að sex ár frá árinu 2008. Verði fallist á breytinguna í b-lið frumvarpsins, þar sem lagt er til að árinu 2014 verði bætt við upptalninguna í núgildandi lögum, er nauðsynlegt til samræmis að lögin kveði á um að heimildin taki samfellt til sjö ára í stað sex ára frá og með árinu 2008.

Fyrir ári stóð ég hér og mælti fyrir sambærilegu máli um að framlengja heimild fyrir lífeyrissjóðina til að víkja frá þessum lögbundnu viðmiðum. Ég hygg að ég muni það rétt að ég lét þess getið að ég teldi ekki fært að koma aftur að ári liðnu og gera slíkt hið sama vegna þess að árið fram undan yrði að nýtast til að leysa þetta mál, það væri ekki boðlegt að koma aftur og aftur með framlengingu eitt ár í senn.

Hver er hinn undirliggjandi vandi? Hann er að sjálfsögðu sá að við erum með meiri skuldbindingar en eignirnar standa undir til að tryggja og því þarf eitthvað að breytast. Því miður er ég hingað kominn aftur til að framlengja þetta ástand en ég get þó sagt að nú er virkt samtal í gangi til að láta á það reyna fyrir alvöru hvort hægt er að ná samkomulagi við samtök opinberra starfsmanna um breytingar á lífeyriskerfi þeirra. Þetta er mikilvægt til að forða megi því að þurfa að hækka iðgjaldið þar sem það mundi enn frekar en orðið er auka muninn á milli réttinda í almenna kerfinu og því opinbera. Þá þarf að hækka iðgjaldið nokkuð verulega og þá er enn meira bil að brúa á þeirri vegferð að jafna réttindin milli kerfanna.

Vilji ríkisstjórnarinnar er sá að vinna að því mikilvæga markmiði og það er áhugi allra aðila sem að þessum málum koma að finna leiðir til þess en því miður hafa engin markviss, stór skref verið stigin á undanförnum árum til að tryggja árangur í þeirri vinnu. Það sér svo sem ekki enn til lands en ég ætla að nefna örfáa þætti sem þarf að fara að vinna með.

Ég tel að viðræður við heildarsamtök opinberra starfsmanna muni í meginatriðum þurfa að snúast um eftirtalda fjóra þætti:

1. Greiðsluáætlun vegna skuldbindinga ríkisins gagnvart B-deild LSR og Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga. Það þarf að taka á uppsöfnuðum vanda í B-deildinni og í stuttu máli sé ég ekki marga valkosti þar. Ég tel að við munum á allra næstu árum, helst eigi síðar en árið 2016, þurfa að hefja sjóðsöfnun vegna skuldbindinga sem við horfum fram á að þurfa að takast á við eftir rétt um áratug.

2. Það þarf að ræða breytingu á réttindaávinnslunni í A-deild LSR. Þar snýst málið um að taka upp aldurstengda réttindaávinnslu í stað þess að hún sé jöfn.

3. Það þarf að finna leiðir til að leggja mat á og bera saman eðlilega og af sanngirni hver heildarkjör opinberra starfsmanna eru gagnvart almenna vinnumarkaðnum.

4. Það þarf að ræða framtíðarfyrirkomulag og lagalega umgjörð lífeyrismála opinberra starfsmanna.

Síðan er fjölmargt sem tengist því sem ég hef nefnt sem væri hægt að hafa langt mál um. Aðalatriðið er að við viljum vinna okkur í átt til þess að gera kerfið sjálfbært. Við viljum halda áfram með þá vinnu sem hefur staðið yfir í nokkur ár, að jafna réttindaávinnslu í kerfunum, og við viljum til lengri tíma draga úr þeirri hættu sem því fylgir fyrir ríkissjóð að hafa bakábyrgð á lífeyrisréttindum.

Þetta eru engin smáverkefni og það er svo sem ekki við því að búast að þau leysist á einni nóttu. Ég stend ekki hér til að gagnrýna það að ekki hafi meiri árangur náðst á undanförnum árum eða síðasta áratug vegna þessa vanda sem við höfum lengi vitað af. Aðalatriðið er að ég vil núna stíga markviss skref og leggja mitt af mörkum til að láta á það reyna hvort raunhæft er að ná árangri í þessu. Það er í því samhengi sem þetta frumvarp er hér lagt fram í ákveðinni neyð vegna þess að ella þyrftum við að hækka iðgjaldið sem mundi skemma fyrir hinni vegferðinni.

Ég mælist til þess, virðulegi forseti, að þessu frumvarpi verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr. að lokinni þessari.