144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

aðgerðir til að efla lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði.

13. mál
[16:38]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að efla lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í tækni- og hugmyndaiðnaði, sem ég flyt ásamt öðrum þingmönnum í þingflokki Samfylkingarinnar.

Tildrög þessarar tillögu eru þau að okkur þykir sem frekar hægt hafi miðað í að taka á þeim alvarlega vanda sem íslenskt efnahagslíf býr núna við, kyrrstöðu og einangrun sem leiðir af höftum og veikum gjaldmiðli. Við sáum það í fyrra að ríkisstjórnin lagði sig í framkróka við að draga til baka það frumkvæði sem við höfðum átt í fyrri ríkisstjórn að uppbyggingu stoðkerfis tækni- og atvinnuþróunar með því að draga úr framlögum í Tækniþróunarsjóð, Rannsóknasjóð og alla samkeppnissjóði og það er brýn þörf á að snúa vörn í sókn.

Það er vert að geta þess í upphafi að það er fagnaðarefni að sjá í fjárlagafrumvarpinu að ríkisstjórnin snýr að sumu leyti til baka þessari öfugþróun og leggur til að hækka framlög í þessa sjóði, en betur má ef duga skal.

Þær tillögur sem er að finna í þessari þingsályktunartillögu eru þannig til komnar að á Tækni- og hugverkaþingi í febrúar 2013 fór fram samkeppni meðal þátttakenda á þinginu þar sem þátttakendur á þinginu tóku við tillögum frá stjórnmálaflokkum um úrbætur fyrir þekkingariðnað. Stjórnmálaflokkarnir settu fram tillögur sínar nafnlaust og það fór fram atkvæðagreiðsla um þær. Tillögurnar sem raktar eru í þessari þingsályktunartillögu hlutu 1., 2. og 3. verðlaun á því þingi þegar stjórnmálaflokkarnir kepptu nafnlaust um hylli gesta. Við setjum þessar tillögur upp sem þingsályktunartillögu. Sumt hefðum við auðvitað getað lagt fram sem hreint lagafrumvarp en við kusum að fara þá leið að leggja þetta fram sem þingsályktunartillögu til að undirstrika hina heildstæðu stefnumörkun sem hér er að finna. Sumar af þessum tillögum eiga sér hliðstæðu í ýmsum tillöguflutningi annarra þingmanna og eins og ég segi þá hefur orðið vart hreyfingar ríkisstjórnarinnar í rétta átt í þessu efni. Mun ég nú víkja að einstökum tillögum sem hér er að finna.

Í fyrsta lagi gerum við ráð fyrir rýmri fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða í óskráðum félögum. Við leggjum til að fjármála- og efnahagsráðherra flytji frumvarp til laga um auknar heimildir lífeyrissjóða í þessu efni. Í okkar stjórnartíð lagði þáverandi fjármálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir, fram frumvarp þar sem lagt var til að hlutfall það sem lífeyrissjóðum er heimilað að fjárfesta í óskráðum bréfum yrði tímabundið hækkað úr 20% af hreinni eign í 25. Það kom fram í athugasemdum við það frumvarp að við bankahrunið hefði lífeyrissjóðakerfið orðið fyrir miklu tjóni og hlutfall óskráðra bréfa hefði aukist töluvert í kjölfar hrunsins og framboð skráðra hlutabréfa væri enn lítið. Með þessum hætti væri reynt að fjölga góðum fjárfestingarkostum fyrir lífeyrissjóðina, en líka reynt að yfirvinna þann mikla ókost sem þekkingarfyrirtæki búa við nú sem er lítill gjaldmiðill og gjaldeyrishöft sem gerir þeim erfitt að fjármagna sig. Þetta frumvarp varð ekki að lögum. Við gerum ráð fyrir að ráðherra útbúi slíkt frumvarp. Það er síðan útfærsluatriði hversu hátt þetta hlutfall á að vera og hversu lengi slík heimild ætti að standa.

Það má líka geta þess að hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur lagt fram aðra útfærslu á þessu í frumvarpi sem felur í sér að heimildir yrðu rýmkaðar hvað varðar bréf sem skráð eru á tilteknum tilboðsmarkaði, First North. Það er líka athugunarverð leið. En í öllu falli er markmið okkar það að auðvelda með þessum hætti fjárfestingar lífeyrissjóðanna í vaxandi þekkingarfyrirtækjum.

Í annan stað er það sérstaklega ámælisvert að ríkisstjórnin skyldi ekki hafa haft frumkvæði að því að framlengja lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, sem runnu út í árslok í fyrra. Það var mikil afturför að þau lög skyldu látin falla úr gildi í stað þess að ríkisstjórnin legði fram frumvarp um framlengingu þeirra. Við tökum hins vegar eftir því nú að á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er að finna drög að slíku frumvarpi og óskandi að það komi fram hið fyrsta.

Tillaga okkar gerir ráð fyrir því að slíkt ívilnanakerfi verði sett á fót á ný og að kveðið verði á um almennar ívilnanir vegna þjálfunarkostnaðar, ívilnanir vegna nýfjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja, ívilnanir vegna nýfjárfestinga í rannsóknar- og þróunarverkefnum og vegna umhverfistengdra fjárfestingarverkefna.

Við gerum líka tillögu um upplýsingaveitu um tækni- og hugverkafyrirtæki sem leita eftir fjárfestum, í samvinnu við hagsmunaaðila og má þar nefna Íslandsstofu, Klak, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Rannís. Við gerum jafnframt ráð fyrir því að græni fjárfestingarsjóðurinn, sem við áttum frumkvæði að, verði látinn í reynd virka. Það hefur ekki orðið í tíð þessarar ríkisstjórnar en fyrsta fjárveiting til hans var samþykkt í fjárlögum fyrir árið 2013. Það þarf að marka honum fjárfestingarstefnu og í uppbyggingu á því sviði felast auðvitað mikil sóknarfæri fyrir Ísland í ljósi sérstöðu okkar og þeirrar ímyndar sem við viljum gefa af Íslandi sem landi hreinnar náttúru þar sem lögð er áhersla á sjálfbæra og ábyrga nýtingu náttúruauðlinda og umhverfisvernd.

Við gerum líka ráð fyrir og leggjum til að undirbúið verði frumvarp til laga um tvíþætta breytingu á skattalögum. Fyrst skal telja breytingu á almennum skattalögum í þá veru að skapa hvata fyrir einstaklinga til að leggja fé til minni fyrirtækja. Það er hægt að sjá fyrir sér að útfæra skattafslátt til einstaklinga sem leggja hlutafé til sprota- og nýsköpunarfyrirtækja eða smærri fyrirtækja. Slíkt kerfi þarf auðvitað að standast ríkisstyrkjareglur EES-samningsins en það á að vera hægt að útfæra með skynsamlegum hætti slíkt kerfi án þess að það kosti ríkissjóð um of.

Hin lagabreytingin á sviði skattamála sem við leggjum áherslu á er frekari lækkun tryggingagjalds. Það er mikilvægt hagsmunamál fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Við studdum tillögu ríkisstjórnarinnar hér í fyrra um lækkun tryggingagjalds og við munum áfram styðja lækkun tryggingagjalds við afgreiðslu fjárlaga nú. Það hefði verið betra að okkar áliti að leggja meiri áherslu á lækkun tryggingagjalds akkúrat nú til að fjölga störfum og létta á launakostnaði þekkingarfyrirtækja en tryggingagjaldið leggst hlutfallslega þyngst á þekkingarfyrirtæki, fyrirtæki með margt fólk, en leggst hlutfallslega létt á fjárfestingarfrek fyrirtæki, svo sem stóriðju. Ef við tökum til dæmis álfyrirtækin er launakostnaður þar óverulegt hlutfall af veltu.

Að síðustu gerum við ráð fyrir eflingu verk- og tæknináms. Mig langar að eyða nokkrum tíma í að fjalla um þann þátt. Í stjórnartíð okkar á síðasta kjörtímabili lögðum við mikla áherslu á það að opna skólana, fjölga þeim sem kæmust inn í almenna framhaldsskóla og binda það ekki eins og þá var almenn regla við að fólk væri á framhaldsskólaaldri heldur gefa fólki sem væri yfir tvítugt líka möguleika á að fara aftur inn í framhaldsskólakerfið til að sækja sér þekkingu og hæfni til að takast á við fjölbreytt störf. Það vakti líka athygli að atvinnuleysi var fyrirferðarmest og erfiðast í upphafi hjá ófaglærðu fólki og það voru mjög fá störf í boði fyrir þann hóp fyrst í kjölfar hrunsins. Á sama tíma var hins vegar ljóst að atvinnulífið og þekkingarfyrirtækin sem þó lifðu af kölluðu sífellt í vaxandi mæli eftir fólki með tækniþekkingu. Við vorum því í þeirri dapurlegu stöðu að þúsundir ungmenna voru atvinnulaus en höfðu ekki þekkinguna eða hæfnina sem atvinnulífið þurfti á að halda.

Við áttum ágætissamstarf á síðasta kjörtímabili með hagsmunaaðilum, með fyrirtækjum í þekkingariðnaði, um breytingar í þessu efni og útfærslu sem voru að hluta til fjármagnaðar úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Útfærðar voru styttri námsbrautir með nýjum möguleikum til að veita ungu fólki sem ekki hafði framhaldsmenntun og glímdi við atvinnuleysi möguleika á að öðlast fótfestu í framhaldsskólakerfinu og með sérstakri áherslu á menntun sem gæfi starfsréttindi eftir mjög stutt nám. Þetta tókst afskaplega vel, alveg gríðarlega vel.

Það var náttúrlega eins og við manninn mælt að þegar ný ríkisstjórn tók við þá lá hér fyrir skýrsla um árangur okkar af öllum þessum vinnumarkaðsaðgerðum og hvatningarátökum fyrir ungt atvinnulaust fólk og ríkisstjórnin svaraði því með því að leggja þau öll af, hratt og örugglega. Það var mjög misráðið.

Við sjáum hver atvinnuleysisþróunin hefur verið síðasta árið. Já, það hefur dregið úr atvinnuleysi, en einkanlega hjá ófaglærðu fólki. Fólk með starfsmenntun situr eftir og það er áframhaldandi þörf þekkingarfyrirtækja fyrir starfsfólk með tæknimenntun, með verkmenntun sem innlendir skólar hafa ekki fullnægt. Það er ekki hægt að berja hausnum stöðugt við steininn og segja að þetta sé vegna þess að nemendurnir séu svo vonlausir. Þetta hlýtur að vera vegna þess að menntunarframboð og framsetning þeirrar menntunar sem í boði er nær ekki til þess fólks sem gæti nýtt sér úrræðin, þannig að það þarf tvo til. Þess vegna fórum við þá leið með úrlausnirnar fyrir unga atvinnulausa fólkið á sínum tíma að það var ekki greitt nema meðan fólkið hélst í skóla, þannig að skólarnir fengu beinan efnahagslegan hvata af því að halda fólkinu í námi. Það var ekki nóg að segjast bara ætla að gera eitthvað. Menn urðu að leggja sig fram um að halda viðkomandi einstaklingum í námi til að halda greiðslunum sem fylgdu þeim inn í kerfið.

Það er mjög mikilvægt að leggja aukna áherslu á þetta. Við erum eftirbátar nágrannaríkja okkar hvað framhaldsmenntun varðar og verkmenntun. Það er svolítið dapurlegt að sjá að í nýrri hvítbók menntamálaráðherra enga sérstaka áherslu á eflingu verknáms. Það er líka sorglegt að sjá nú í fjárlagafrumvarpi haldið áfram með þá öfugþróun ríkisstjórnarinnar að þrengja að framhaldsskólunum og aðgönguskilyrðum að framhaldsskólum og gera það erfiðara og erfiðara fyrir fólk sem hefur dottið út úr framhaldsnámi að komast inn aftur. Samkvæmt uppleggi fjárlagafrumvarpsins má fullyrða að á næsta ári verði það algerlega ómögulegt fyrir fólk yfir tvítugu sem ekki hefur lokið framhaldsmenntun að komast inn í framhaldsskóla. Það eru mjög dapurleg skilaboð og óskynsamleg skilaboð frá hinu opinbera.

Við leggjum til margháttaðar aðgerðir til að takast á við þennan skort á verk- og tæknimenntuðu fólki. Við viljum ráðast í hvatningarátak, auka vægi verk- og tæknináms í grunnskólum víða um land þar sem framsæknir framhaldsskólar hafa unnið með grunnskólum. Hefur það skilað miklum árangri. Ég nefni sérstaklega Menntaskólann í Kópavogi, Verkmenntaskóla Austurlands þar sem hefur verið mjög gaman að sjá hvernig menn hafa unnið með efstu bekkjum grunnskóla og gefið þeim færi á að kynna sér verkmenntun. Það þarf að bæta úr brýnni þörf fyrir nýjar leiðir í framhaldsnámi í iðn-, verk- og tæknigreinum fyrir þá sem hafa lokið starfsnámi á framhaldsskólastigi. Það þarf að gera fólki áfram kleift að fá starfsréttindi í verk- og tæknigreinum með eins stuttum og hnitmiðuðum aðferðum og mögulegt er og svo þarf að vinna með fyrirtækjunum í greiningu á þörfum atvinnulífs og (Forseti hringir.) sérstökum lausnum til að mæta þörfum hvers fyrirtækis fyrir sig.

Ég geri svo að tillögu minni að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.