144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

aðgerðir til að efla lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði.

13. mál
[16:54]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru margar frábærar tillögur. Hvað er líklegt til árangurs, ef hv. þingmaður gæti bent okkur á það? Það eru tvö frumvörp, það er náttúrlega svolítið þungt í vöfum, það er fjárveiting í fjárlögum, það er upplýsingaveita, aðgerðaáætlun og fjárfestingarstefna. Þetta eru þær tillögur, eins og hv. þingmaður segir, sem komu upp á tækniþinginu.

Þetta er þríþætt. Öll þessi verkfæri miða að því að auka fjárfestingu í fyrsta lagi, breytingu á skattalögum í öðru lagi og eflingu verk- og tæknináms. Ég get alla vega uppfrætt hv. þingmann um að sá hluti tæknináms sem lýtur að tölvunarfræði og slíku hefur aukist alveg gríðarlega. Kannski þingmaðurinn geti upplýst okkur um það hvað hefur verið að gerast í öðru tækninámi. Verknám held ég að sé enn þá svolítið eftir á. Mér hefur fundist að í samfélaginu hafi fólki verið ýtt svolítið inn í háskóla í einhver önnur fög en þessi. Hvernig sér hann það þá fyrir sér? Verður þetta svona stuðnings- og hvatningarátak? Hvað getum við þingmenn gert í því? Getur hann bent á hvernig framtíðin muni líta út? Við fylgjumst kannski ekki mest með því, ef maður er bara alveg heiðarlegur, það er svo mikið í karpinu, en hvernig sér hann þetta fyrir sér?

Kannski ég láti þetta nægja í fyrstu.