144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

aðgerðir til að efla lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði.

13. mál
[17:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni kærlega fyrir ræðuna og tillöguna, hún er mjög góð. Hv. þingmaður getur búist við stuðningi mínum við afgreiðslu þessa máls.

Mig langaði að varpa fram spurningu til hv. þingmanns um menntunarhlutann. Hér kemur fram að stefnt verði að því að efla verk- og tækninám. Nú er eitt af þeim vandamálum sem við eigum við að etja gagnvart menntun að við vitum ekki hvað fólk á eftir að vinna við eftir 20–30 ár. Þess vegna er afskaplega erfitt fyrir okkur að spá fyrir um það hvað við ættum að kenna börnum ef markmiðið er að kenna þeim eitthvað til starfs. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhverjar hugleiðingar í þeim efnum, hvort við ættum kannski frekar að stefna að því að kenna krökkum að læra á eigin spýtur, efla endurmenntun sérstaklega á fullorðinsaldri eða eitthvað því um líkt, hvort hv. þingmaður sjái fyrir sér einhverja breytta hugmyndafræði gagnvart því hvert inntakið í menntun verði, hvort það varði það sem við ætlum að kenna eða hvort við eflum fólk í að læra sjálft.