144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

aðgerðir til að efla lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði.

13. mál
[17:03]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það skiptir mjög miklu máli að kenna fólki að læra sjálft. Það er þess vegna mikil öfugþróun, finnst mér, þegar stöðugt er verið að þrengja aðgang að framhaldsskólum eftir að fólk er komið yfir tvítugt, eins og við sjáum núna hjá ríkisstjórninni, þegar við ættum að vera að auðvelda það svo að fólk gæti komið inn og breytt þekkingu sinni, breytt hæfni sinni hvenær sem er á lífsleiðinni.

Við vitum líka að sumt er óáþreifanlegt en reynir samt á verk- og tækniþekkingu. Mjög gott dæmi er t.d. CCP og tölvuleikjasýndarheimstilbúningur. Hann reynir hins vegar á ýmislegt sem er lært eins og teikningu og þekkingu og hönnun þannig að þó að eitthvað handfast sé lært þá nýtist það í sýndarheimi og sýndarveruleikanum.

Enn annað sem skiptir máli: Ef maður veit ekki hvernig hlutir virka er mjög erfitt að fara í framþróun. Þýskur hagfræðingur var spurður hver væri grunnurinn að þýsku efnahagslífi í dag. Hann sagði: Það er ekki lengur bílaframleiðsla eða framleiðsla á einhverjum stórum hlutum, það er framleiðsla á hlutum sem fara inn í hluti sem fara inn í hluti sem fara inn í hluti. Til þess þarf gríðarlega þekkingu, mikla verkþekkingu og mikla tilfinningu fyrir efni og hvernig hægt er að vinna með það. Sú þekking er mjög léleg á Íslandi, framhaldsmenntun of lítil og það er of lítil áhersla á að fólk geti spreytt sig með ólík efni og ólíka hluti í verknámi. Þess vegna held ég að allt skipti þetta máli í bland. Við eigum að leggja áherslu á tæknina. Við eigum líka að leggja áherslu á handverkið sem getur síðan verið grunnur lausna, jafnvel í sýndarheimi.