144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

aðgerðir til að efla lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði.

13. mál
[17:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og fagna skilningi hans á viðfangsefninu vegna þess að ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni

Mig langar að brydda upp á öðrum þætti sem verður alltaf stærri og stærri hluti af menntun. Það er leikjavæðing, þ.e. að námið sé hannað þannig að það sé sem næst því að vera í formi leikja vegna þess að þannig er oft hægt að fá börn til að gera ótrúlegustu hluti. Annar hv. þingmaður nefndi það að krakkar sem eiga erfitt með nám geta alveg sleppt sér og brillerað í einhverjum tölvuleikjum. Tölvuleikir eru þess eðlis að þeir byggja upp einhverja hæfni, svo sem í tungumálum, stærðfræði eða einhvers konar lausnarmiðaða hugsun, og það er vel hægt að nýta þá tækni til menntunar. Það yrði auðvitað allt öðruvísi hugsun en hefur verið hefðin í menntakerfum bæði hér og annars staðar í gegnum tíðina þar sem oft hefur verið litið á það sem einhvers konar mótsögn að börn skemmti sér og læri á sama tíma. Gamla viðhorfið virðist oft vera þannig að það sé beinlínis óhollt fyrir lærdómsþroska barna að þau hafi gaman af. Auðvitað er þetta að breytast og hefur breyst mjög mikið upp á síðkastið, undanfarna örfáa áratugi, og það er mjög gleðilegt. Þá er spurningin hvort við göngum ekki skrefi lengra og reynum eftir fremstu getu að gera námið beinlínis að leik.