144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

efling heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarþjónustu.

14. mál
[17:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er gott mál. Það er mikilvægt að gera langtímaáætlanir, það er allt of lítið gert af því á Íslandi og er það ein af ástæðunum fyrir óstöðugleika í stjórnmálum. Það er ein af þeim ástæðum sem mig minnir að hafi verið nefnd í McKinsey-skýrslunni um Ísland, gott ef ekki, að fjárfestar veigri sér við því að koma hingað út af því. Það er ein af ástæðunum fyrir að þeir koma ekki hingað eða koma síður hingað. Fjárfestar fara í gegnum sína tékklista þegar þeir ákveða hvert þeir ætla að fara. Ef þeir finna einhverja ástæðu til að hafna ákveðnum stað geta þeir bara afgreitt það út af borðinu.

Peter Drucker, faðir nútímastjórnunar, bendir á að ef þú gerir ekki áætlun og áttar þig ekki á jaðarskilyrðunum sem áætlunin þarf að uppfylla til að ná árangri áttu á hættu á að verða það sem er kallað „whipping boy“ þeirra aðstæðna sem koma upp. Þú verður rótlaus og bregst alltaf við aðstæðunum. Það blæs núna frá hægri þá ferðu þangað, svo blæs frá vinstri þá ferðu þangað. Það er líka mjög mikilvægt að gera þetta í góðu samstarfi eins og kallað er eftir í þingsályktunartillögunni því að annars er hætt við að stöðugleiki náist ekki; það kemur ný stjórn og ný stefna. Það er eitthvað sem við verðum að fara að læra á Íslandi ef við viljum aukinn stöðugleika. Við verðum að skapa kringumstæður til að erlendir fjárfestir vilji koma hingað. Og líka aðstæður fyrir landsmenn og fyrirtæki til að geta tekið langtímaáætlanir og séð svona nokkurn veginn fram í tímann á hvaða róli hlutirnir verða. Til að ná sátt um þessa meginstefnu sem við erum að taka er mikilvægt að vinna hlutina í góðu samstarfi og það er mikilvægt að gera þessa áætlun.

Hvað finnst hv. þingmanni um (Forseti hringir.) þau grunngildi sem byggja ætti á varðandi heilbrigðiskerfið sérstaklega í þessu samstarfi?