144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

efling heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarþjónustu.

14. mál
[17:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þá vil ég gleðja þingmanninn. Ég og hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson áttum einmitt orðastað um þetta. Og í dag átti ég í umræðum, í sérstöku umræðunni, við hæstv. heilbrigðisráðherra. Báðir eru þeir sammála hv. þingmanni um eitt af meginhlutverkum okkar. Þegar við erum að tala um fjárlög og tekjuöflunarfrumvörpin, segir Bjarni Benediktsson, með leyfi forseta:

„Herra forseti. Jú, ég tel að það sé eitt meginhlutverk okkar í heilbrigðiskerfinu að tryggja að fólk eigi þar bæði greiðan aðgang óháð efnahag og afkomu …“

Svo heldur hann áfram:

„ … og að langveikir þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að kostnaður þeirra safnist þannig upp að það sé ekki við það ráðið.“

Það virðist vera að hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sé hlynntur aðgangi óháð efnahag og samtryggingu einhvers konar.

Hæstv. heilbrigðisráðherra er sammála þessu, nefnir það í dag, þannig að menn virðast vera sammála um þetta. En samt, eins og hv. þingmaður nefnir, er þetta varðandi greiðsluþátttöku sjúklinga. Hvernig getur það samræmst að vera að auka greiðsluþátttökuna og á sama tíma segjast vera fylgjandi grunngildinu um aðgang óháð efnahag? Það hreinlega samræmist ekki.

Þannig að þessi tillaga, um að vera með þriggja ára áætlun um hvernig fara eigi með þessi mál, er mjög gott og greinilega þarft út af því að annars er krafa um að auka greiðsluþátttöku o.s.frv. frá hægri armi Sjálfstæðisflokksins á meðan aðrir eru að þrýsta hinum megin. Ef menn eru ekki búnir að negla þetta svolítið niður fyrir sér og negla þetta inn í það hvernig eigi að verja fjármunum og forgangsraða þeim þá sveiflast menn bara í vindinum.