144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum.

72. mál
[17:43]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 61/1999, um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum. Frumvarpið er lagt fram í annað sinn, en það var áður lagt fram á 143. löggjafarþingi án þess að fjallað hafi verið um það efnislega á því þingi. Lög um evrópsk samstarfsráð hafa gilt hér á landi frá því árið 1999 þegar tilskipun 94/45/EBE var innleidd í íslenskan rétt.

Tilskipunin var endurútgefin sem tilskipun 2009/38/EB, um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum, er starfa á bandalagsvísu, varðandi upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn. Tilskipunin felur í sér efnislegar breytingar á eldri tilskipun og er því nauðsynlegt að breyta lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum. Breytingunum er einkum ætlað að skýra nánar þær reglur sem eiga að gilda um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum.

Í aðfaraorðum tilskipunarinnar er lögð áhersla á að nútímavæða upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð svo tryggja megi virk réttindi starfsmanna til upplýsinga og samráðs milli landa. Jafnframt er lögð áhersla á það markmið að leggja sem minnstar byrðar á fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður á sama tíma og starfsmönnum þeirra eru tryggð virk réttindi í sambandi við upplýsingar og samráð.

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég er í sérstakri stöðu þar sem ég stend í ræðustól á Alþingi og mæli fyrir frumvarpi til laga sem mun að öllum líkindum ekki reyna á hér á landi í ljósi þess um hversu stór fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður lögin koma til með að gilda. Hið sama á við um gildandi lög um evrópsk samstarfsráð, en þau gilda um fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður sem hafa að minnsta kosti 1 þús. starfsmenn í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Þegar um er að ræða fyrirtækjasamstæður er enn fremur skilyrði að þau hafi fyrirtæki eða starfsstöðvar í að minnsta kosti tveimur EES-ríkjum og 150 starfsmenn í hvoru þeirra. Engu að síður er mikilvægt að frumvarp þetta verði samþykkt sem lög frá Alþingi, en Eftirlitsstofnun EFTA hefur þegar stefnt íslenskum stjórnvöldum þar sem umrædd tilskipun hefur ekki verið innleidd.

Maður getur líka verið bjartsýnn og vonast til þess að eitthvert íslenskt fyrirtæki muni ná þessari stærð.

Í frumvarpinu er kveðið á um að valdsvið samstarfsráðs, upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn skuli takmarkast við fjölþjóðleg málefni. Tilgangur slíkrar afmörkunar á valdsviði samstarfsráðs sem og upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn er aðallega að aðgreina valdsvið og aðgerðasvið evrópsks samstarfsráðs frá valdsviði og aðgerðasviði innlendra fulltrúaráða starfsmanna.

Í frumvarpinu er nánar skilgreint hvað átt er við með fjölþjóðlegum málefnum sem og fulltrúum starfsmanna, upplýsingamiðlun og samráði.

Í frumvarpinu er líka fjallað um skipan samstarfsráðs, en þar er lagt til að gæta skuli jafnvægis við úthlutun sæta í samstarfsráði að því marki sem unnt er með tilliti til kyns fulltrúanna, starfa þeirra og starfssviðs. Jafnframt er lagt til að hefja skuli að nýju samningaumleitanir vegna samnings um samstarfsráð ef gerðar eru verulegar breytingar á skipulagi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu, auk þess sem lagt er til að fulltrúar samstarfsráðsins hafi nauðsynleg úrræði til að nýta réttindi sín samkvæmt lögum um evrópskt samstarfsráð og til að gæta hagsmuna starfsmanna fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu.

Í þessu frumvarpi eru því lagðar fram nauðsynlegar breytingar á lögum um evrópsk samstarfsráð sem eiga að tryggja að tilskipunin geti að fullu talist innleidd hér á landi.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er tilskipunin þannig að fullu innleidd hér á landi að mínu mati og þau réttindi sem henni er ætlað að veita starfsmönnum fyrirtækja eða fyrirtækjasamstæða er starfa í að minnsta kosti tveimur ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar til meðferðar.