144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

loftslagsmál.

[15:15]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrirspurnina um þetta mikilvæga mál og tek undir með henni í sambandi við áhyggjur okkar allra, og ættu að vera íbúa heimsins alls, af þróun mála síðustu áratugina og sérstaklega ef okkur tekst ekki á heimsvísu að ná einhverri skynsamlegri niðurstöðu um næstu skref.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni um það sem snýr að því sem ógnar framtíðarauðlindum okkar hvað varðar súrnun sjávar að þar þyrftum við svo sannarlega að bæta meira í þær rannsóknir sem við höfum gert á þessu sviði á liðnum árum.

Hins vegar varðandi þá stefnu sem við höfum og þau skilaboð sem við munum bera á leiðtogafundinum í New York þá getum við m.a. bent á nýlega útgefna skýrslu OECD um stöðu umhverfismála á Íslandi undanfarin tíu ár þar sem bent er á það sem sérstöðu Íslendinga að vera með um 85% af endurnýjanlegri orku í landinu og þar af leiðandi komin í raun fram úr öllum öðrum þjóðum. Það gerir hins vegar það ekki að verkum að við getum ekki gert betur.

Í þeirri útfærslu sem við erum að vinna að í sambandi við loftslagsráðstefnuna í París þá erum við að uppfylla Kyoto-samninginn. Við erum með kolefnisbindingu, verkefni sem er mjög áhugavert og er vísir að byrjuninni sem kemur fram í fjárlögum þessa árs þar sem við ætlum að binda kolefni í auknum mæli með skógrækt og landgræðslu. Við ætlum síðan að halda áfram á þeirri jákvæðu braut sem við höfum verið á hvað varðar jarðhitann, ekki síst í þróunarríkjum Evrópu sem er stór hluti af þróunarstarfi okkar sem skilar gríðarlega miklu til loftslagsbreytinga í heiminum öllum.

Ég tel að við séum að á (Forseti hringir.) mjög góðri leið og á réttum forsendum þar sem við styrkjum margt af því sem við ætlum að gera vel hér á landi en erum jafnframt tilbúin að gera enn betur.