144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

flutningur Fiskistofu.

[15:21]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að beina spurningu til hæstv. ráðherra um flutning Fiskistofu. Ég er alveg sammála því að það þarf að fara í aðgerð til að efla landsbyggðina, m.a. dreifa opinberum störfum betur um landið. Það gera margar þjóðir mjög meðvitað. Hluti af þessu getur verið að flytja höfuðstöðvar út á land og hafa útibúin í Reykjavík eins og hugmyndin er með fyrirhugaðan flutning á Fiskistofu.

Hugmyndin um flutning Fiskistofu er ekki ný af nálinni. Ég er hérna með stutta skýrslu sem Eyþing lét vinna fyrir sig árið 2004 sem heitir Flutningur Fiskistofu til Akureyrar – ögrandi verkefni. Í þessari litlu skýrslu sem mér finnst mjög góð kemur fram margt áhugavert. Hér segir meðal annars að markmiðið ætti að vera að flytja Fiskistofu í áföngum frá Reykjavík til Akureyrar á ekki lengri tíma en fimm árum. Markmiðið ætti að vera að undirbúa flutninginn sem best, sérstaklega með tilliti til núverandi og væntanlegra starfsmanna. Mótuð verði sérstök stefna í þessu sambandi.

Svo eru tíunduð rökin fyrir því að flytja Fiskistofu til Akureyrar og bent á að sjávarútvegur er auðvitað mest stundaður á landsbyggðinni en 90% af störfum hins opinbera sem tengjast sjávarútvegi eru á höfuðborgarsvæðinu.

Svo er fjallað um hvernig flutningurinn ætti að fara fram. Margir hafa haft áhyggjur af náttúrulegri endurnýjun á starfsfólki sem verður auðvitað ekki núna því að þetta á að gerast allt svo hratt að þekkingin getur horfið. Mig langar að spyrja: Vissi ráðuneytið ekkert af þessari úttekt? Af hverju er ekki vandað betur til verka?

Þó að ég sé fylgjandi því að flytja opinber störf út á land finnst mér þessi framkvæmd mjög vanhugsuð, eins og hún hafi hreinlega ekki verið hugsuð til enda.

Einnig langar mig þá að spyrja: Af hverju er ekki gert ráð fyrir flutningi Fiskistofu norður til Akureyrar (Forseti hringir.) í fjárlögum ársins 2015?