144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

flutningur Fiskistofu.

[15:23]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég get reyndar ekki verið sammála hv. fyrirspyrjanda um að ekki hafi verið vandað til verksins. Svo má deila um hvort vinna eigi verkið í kyrrþey og til hlítar og klára það og tilkynna síðan með hvaða hætti það er gert og þá geti engir starfsmenn eða aðrir komið að verkinu. Mér fannst það ekki góð leið. Þess vegna voru áformin um þessa stefnumarkandi ákvörðun kynnt, sett á laggirnar verkefnisstjórn eins og áður hefur komið hér fram, hún hefur síðan unnið tillögur um það hvernig þetta getur gerst sem best og ráðinn til þess verkefnisstjóri. Það skýrir af hverju ekki eru tillögur í fjárlögunum akkúrat núna. Við þekkjum ekki til hlítar hversu margir starfsmenn eru tilbúnir að fara og í þessari vinnu verkefnisstjórnarinnar sem fór fram eftir að fjárlagavinnunni var lokið gátu komið fram og hafa komið fram tillögur sem lúta að því að það kosti hugsanlega einhverja fjármuni á þessu ári en mjög líklega á næsta ári og síðan á árinu 2016. Hve miklir er ekki hægt að segja á þessu stigi vegna þess að verkefnisstjórnin og verkefnisstjórinn eru áfram að vinna að málinu í samstarfi við starfsmenn og forstjóra Fiskistofu.

Auðvitað þekkti ráðuneytið þær skýrslur sem lágu fyrir. Menn hafa áður farið yfir það með hvaða hætti þetta hefur gengið hjá öðrum þjóðum, til að mynda hjá Norðmönnum þar sem við skoðuðum ítarlega þrjár skýrslur. Þar er reynslan sú að 75% til jafnvel 90% starfsmanna kjósa ekki að fara með flutningnum þannig að það kemur ekki á óvart að það skuli ekki vera stór uppvakning við að flytja á þessu stigi málsins. Þess vegna þarf að velta fyrir sér hvernig við getum tryggt mannauð stofnunarinnar og komið til móts við starfsmennina. Það tel ég mig vera að gera núna í vinnu (Forseti hringir.) verkefnisstjórnarinnar og verkefnisstjórans og með þeim áformum sem ég hef sagt í bréfi til starfsmannanna að ég muni beita mér fyrir.