144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

flutningsstyrkur til starfsmanna Fiskistofu.

[15:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég lít ekki svo á og tala ekki svo kæruleysislega um að hér sé verið að lokka fólk. Eins og ég lýsti áðan er þetta skynsamleg aðgerð af hálfu ríkisins sem hefur sparnað í för með sér, hún er skynsamleg fyrir stofnunina. Hún er byggð á ákveðnum forsendum og ég hef lýst því yfir að ég muni beita mér fyrir henni. Ég efa það ekki að fyrir þessari ákvörðun um flutning starfanna eða höfuðstöðvanna sé meiri hluti hér fyrir í þinginu, ég hef ekki efast um það eina mínútu.

Ég var vissulega undrandi á yfirlýsingum formanns fjárlaganefndar um helgina, sérstaklega þar sem við áttum ágætisfundi um málið fyrr í sumar þar sem farið var yfir að slíkar hugmyndir væru komnar fram í verkefnisstjórninni. Ég á ekki von á því að það finnist ekki góð niðurstaða í þetta mál í þinginu og menn muni greiða úr því þegar þeir hafa verið upplýstir um það og áformin hafa verið kynnt og þá verði unnið samkvæmt því frá A til Ö. Ég efa ekki að það endi skynsamlega.

Eins og ég ítrekaði áðan er þessi 3 millj. kr. upphæð fundin með ákveðnum hætti, hún á sér fordæmi í öðrum löndum og hún er mun betri en þær leiðir sem hafa hingað til verið farnar og eru síðan notaðar til þess að skera niður störf á landsbyggðinni af forstjórum stofnana með þeim rökum að það sparist svo mikið við það að hætta að borga mönnum fyrir að keyra frá höfuðborgarsvæðinu til Keflavíkur eða til Selfoss eða til Akraness eða á aðra staði. Sá kostnaður er auðvitað falinn og hann er miklu, miklu hærri en þær 3 milljónir sem hér er um að ræða.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að flutningskostnaður er greiddur og þessar 3 milljónir eru umfram það. Þetta eru sem sagt áform um aukinn flutningsstyrk vegna þessarar færslu og ég efa það ekki að meiri (Forseti hringir.) hluti verði fyrir því hér í þinginu.