144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

starfsemi Aflsins á Norðurlandi.

[15:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir svör hennar. Ég vil vekja athygli á því að árið 2013 fjölgaði einkaviðtölum um 7,4% hjá Aflinu og voru þau 803 talsins. Alls voru 232 skjólstæðingar sem komu í einkaviðtöl hjá Aflinu árið 2013. Til samanburðar er þetta um 1/3 af því sem Stígamót hafa verið að sinna á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að það sé mjög brýnt að samtök eins og Aflið fái þá viðurkenningu að vera sett á fjárlög. Það er kannski það sem ég er að reyna að vekja athygli á. Annað er mjög erfitt. Þessi samtök hafa verið starfandi í 12 ár og mér finnst alveg tími til kominn til að það sé skoðað að setja þau á fjárlög því að þau geta ekki verið hvort tveggja á fjárlögum og styrkjum.

Velferðarnefnd heimsótti Aflið síðastliðinn vetur. (Forseti hringir.) Við sem vorum þar sáum hve léleg aðstaðan var og hve brýnt var að það kæmist í betra húsnæði og fengi meiri stuðning (Forseti hringir.) frá hinu opinbera.