144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[15:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Samgöngur á Vestfjörðum eru vissulega óásættanlegar víða eins og við Árneshrepp og í Barðastrandasýslu og samgöngur á milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða. Þarna er ekki eingöngu um byggðamál að ræða heldur líka öryggismál fyrir þennan landshluta sem hefur lengi átt í mikilli varnarbaráttu. Sókn er nú í atvinnumálum og vonir vakna um að það sé betri tíð fram undan og þá er vegakerfið grundvöllur þess að það gangi eftir.

Fjárlagafrumvarpið í ár fyrir næsta ár er mikil vonbrigði hvað varðar framlög til samgöngumála. Í stað 23 milljarða í samgöngumál er gert ráð fyrir 20 milljörðum í þennan málaflokk. Áfram verður dregið úr styrkjum við innanlandsflugið og erfitt getur reynst að halda úti sama þjónustustigi á ríkisstyrktum leiðum eins og Bíldudal og Gjögri. Það kom fram í máli hæstv. innanríkisráðherra í umræðu um fjárlög á dögunum að þau verkefni sem ekki eru samningsbundin séu í óvissu. Þar eru í óvissu vegaframkvæmdir eins og áframhaldandi uppbygging á þjóðvegi 60 um Gufudalssveit og einnig Dýrafjarðargöng þar sem fjármögnun er ekki tryggð. Seinka verður útboði á Dýrafjarðargöngum, það kom fram í máli hæstv. ráðherra hér um daginn í umræðunni að göngin yrðu ekki boðin út fyrr en árið 2017. Nú sýnist mér að það sé ekki bara staðsetning veglínu sem er í uppnámi heldur líka fjármögnun þessara verkefna.

Ég hef sagt að ég virði þau sjónarmið sem komið hafa fram um náttúruverndargildi Teigsskógs en tel rök Vegagerðarinnar um að ný veglína raski aðeins 1% af gróðurlendi vera ásættanlega niðurstöðu sem allir verði að taka tillit til vegna brýnna hagsmuna svæðisins. Vestfirðir eru skilgreindir sem brothætt byggð og ábyrgð Alþingis er mikil gagnvart samgöngum þessa svæðis. Það verður að tryggja fjármögnun (Forseti hringir.) og samfellu í þau verkefni sem fram undan eru. Það er ekki bara byggðamál heldur mikið öryggismál fyrir þennan landsfjórðung.