144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[15:59]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir að taka þetta mál upp hér á Alþingi, sem og innanríkisráðherrann að fá tækifæri til að ræða þennan hluta landsins sem á erfitt uppdráttar þegar kemur að samgöngumálum.

Undanfarið hefur mest verið rætt um eina leið, um Teigsskóg. Umræðan hefur tekið langan tíma og hefur ekki enn fengið endi. Ég tel að ákvörðun um þetta mál þurfi að taka sem fyrst og hvet ég ráðherrann eindregið til þess. Búið er að vinna að þessari samgöngubót frá árinu 2005 eða lengur og málið er enn í uppnámi. Íbúar kalla eftir öruggari samgöngum á þessu svæði. Núverandi vegur er lokaður þungaflutningum í ákveðinn tíma þegar frost fer úr jörðu með tilheyrandi áhrif á atvinnulíf, svo að raunverulegt dæmi sé tekið. Ætla ég ekki að ræða mögulegar lausnir í þeim efnum en nýjasta tillagan, svokölluð ÞH-leið, miðast við 0,9% skerðingu á skóginum miðað við 12% í upphaflegu tillögunni, fyrir utan mótvægisaðgerðir um ræktun skógar á gamla vegarstæðinu. Treysti ég því að hæstv. ráðherra leysi úr þessu stjórnsýslustoppi og eyði óvissu íbúa á svæðinu.

Mig langar að nefna aðra mikilvæga samgöngubót fyrir Vestfirði, sem eru Dýrafjarðargöng. Göngin munu opna milli fjarða á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum. Þessi samgöngubót er mikilvæg vegna þess að yfir köldustu mánuði ársins, þegar aðrir leiðir eru lokaðar á Vestfjörðum, munu göngin stytta leiðir um allt að 400 kílómetra. Dýrafjarðargöng eru á núverandi samgönguáætlun, eins og hæstv. ráðherra nefndi, og áætlað að verkið hefjist 2016.

Að lokum vil ég leyfa mér að segja að það er mikill stuðningur og skilningur við Vestfirði af hálfu umhverfis- og samgöngunefndar. Við í nefndinni og sérstaklega formaður nefndarinnar teljum ástæðu til að nefndin geri sér (Forseti hringir.) ferð á Vestfirði til að skoða samgöngumál og umhverfismál í leiðinni.