144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[16:01]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2011–2014 og á sama tíma stefnumótunarvinnu alveg til 2022. Við skulum byrja á samantektinni sem Vegagerðin gerði út af þessari þingsályktun. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Unnið er að því að stytta ferðatíma landsmanna til næsta atvinnu- og þjónustukjarna og áhersla lögð á að bæta samgöngur þar sem þær eru hvað lakastar, svo sem á sunnanverðum Vestfjörðum.“

Það er sérstaklega tekið fram. Þetta er alveg í upphafi þessarar samantektar sem Vegagerðin gerði.

Í þingsályktuninni sjálfri kemur fram varðandi áherslur til að ná markmiðum stefnumótunarinnar að lokið „verði við endurbyggingu allra helstu stofnleiða á landi og tengingu þeirra við þéttbýli, þar sem eru hundrað íbúar og fleiri, með bundnu slitlagi og viðunandi burðarþoli. Gert verði sérstakt átak við lagningu á bundnu slitlagi á umferðarlitla vegi sem hafa viðunandi burðarþol þrátt fyrir að veghönnun sé að einhverju leyti ábótavant.“

Í þingsályktuninni eru svo sérstaklega nefndir sunnanverðir Vestfirðir, að þar komist íbúar ekki leiðar sinna stóran hluta ársins. Það er ótrúlegt að við lifum við það að ekki er bundið slitlag til svona byggðakjarna.

Þá er kannski rétt að benda á að á sama tíma er í kringum helmingur af verði bensíns opinber gjöld sem eiga að renna til vegamála. Kannski væri ágætt að fá að heyra hjá (Forseti hringir.) hæstv. samgöngumálaráðherra hvernig því er háttað og hlutföllin þar sem þessir peningar renna ekki til þeirra málaflokka sem þeir eru eyrnamerktir.