144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[16:06]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það kemur fram við þessa umræðu að það er hlustað á Vestfirðinga. Menn heyra hvað íbúar á Vestfjörðum hafa að segja, menn heyra áskoranir sem berast frá Vestfjörðum um mikilvægi þess að óvissu um þessa mikilvægu vegaframkvæmd sé eytt. Það kom vel fram í svari hæstv. innanríkisráðherra að hún mun taka þetta mál föstum tökum og þingheimur, eins og hér er talað um, er tilbúinn að standa á bak við hana í því.

Það er mikilvægt að við getum haldið áfram óslitið framkvæmdum við Vestfjarðaveg. Nú lýkur senn stórum áfanga í endurbótum á þeirri leið og því skiptir tíminn gríðarlega miklu máli, hvaða leið svo sem verður farin til að höggva á þennan hnút. Það voru nefndir þrír kostir, eða voru nefndir í ræðu hæstv. innanríkisráðherra, sem hafa bæði kosti og galla. Lagasetningarleiðin, sem æ fleiri taka undir, er kannski ekki gallalaus en ég heyri að þingmenn eru í meira mæli að sameinast um hana en á annmarka hennar hefur verið bent.

Ég vara hins vegar líka við því að við séum að eyða meiri tíma og meiri fjármunum í að hanna veglínur sem búið er að teikna margsinnis undanfarin ár. Það er ekki það sem við erum að bíða eftir, það eru ákvarðanir sem við erum að bíða eftir. Ég vara líka við því að verið sé að syngja þann söng að Dýrafjarðargöng eigi að frestast og frekari uppbygging sé ekki í kortunum. Það er ekki rétt og það kom alls ekki fram í orðum hæstv. innanríkisráðherra hér áðan.

Ég vil undirstrika það að í þinginu er góður samhugur um öfluga innviðauppbyggingu eða vegauppbyggingu á Vestfjörðum. En hver svo sem niðurstaðan verður um hvaða veglína verður farin í nefndum vegi eða nefndum áfanga má það alls ekki, þó hún verði dýrari, bitna á öðrum nauðsynlegum vegaframkvæmdum á því svæði.