144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[16:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af þessum málum þar sem mikill samhljómur er í grunninn en mikill ágreiningur þegar kemur að umræðunni um útfærslu og framkvæmd.

Ég vil brýna hæstv. ráðherra í því að gæta að því hversu dýrmætur tíminn er í þessu efni. Þegar um er að ræða svæði eins og þetta, sem er í mikilli varnarbaráttu, er tíminn óendanlega dýrmætur. Þar sem svæðið má engan tíma missa getum við ekki leyft okkur, og þá er ég bara að tala um veruleikann, að fara ófriðarleið.

Hins vegar verðum við að gæta að því, þegar við tölum frjálslega um stjórnsýsluflækjur og bendur ýmsar, að sú lagasetning sem er fyrir hendi á Íslandi í þessu efni er lagasetning sem snýst að mörgu leyti um að verja hagsmuni sem verja sig ekki sjálfir en það eru hagsmunir náttúruverndar. Það er oft og einatt þannig að þær raddir eru ekki eins sterkar og aðrar raddir og það eru raddir sem við höfum búið um í lagasetningunni að þurfi að hugsa sérstaklega um. Þess vegna vil ég halda því til haga, af því að hér er talað um heimamenn, sem ég hef miklar mætur á og ber mikla virðingu fyrir, að heimamenn eru líka landeigendur sem hafa óskað eftir friðlýsingu þessa svæðis. Það eru heimamenn, landeigendur Hallsteinsness í Gufudalssveit og í Reykhólahreppi og þar í kring sem hafa óskað eftir því þar sem svæðið er einstakt og er hvergi annars staðar til sambærilegt.

Ég vil hvetja innanríkisráðherra og lofa liðsinni mínu í því að við hjálpumst að við að finna leið þar sem þessum sjónarmiðum er haldið til haga. Ég er þeirrar eindreginnar skoðunar að náttúruverndarsjónarmið og sjónarmið byggðar á Vestfjörðum séu ekki andstæð sjónarmið.