144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[16:10]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þessari umræðu og þakka fyrir hana. Ég vil einnig fagna því sem virðist vera þverpólitísk áhersla þingsins á að samgöngubætur á Vestfjörðum verði að raunveruleika fyrr en seinna.

Oft er talað um samgöngur sem lífæð, lífæð byggða og þeirra sem þar búa. En samgöngur um landið, og ekki síst þarna fyrir vestan, eru ekki síst lífæð þess að atvinnulíf blómstri og atvinnulíf þróist og verði fjölbreyttara. Vegurinn á sunnanverðum Vestfjörðum er ekki bara vegurinn þaðan fyrir íbúana heldur er hann líka vegur til sunnanverðra Vestfjarða og hann er nauðsynlegur til að ferðamennska og atvinna henni tengd geti blómstrað.

Ég vil taka undir með öðrum að ég fagna áhuga hæstv. ráðherra og brýni hana til að gera sitt besta til að við missum ekki meiri tíma í þessar vegabætur. Nú er ég ekki vegaverkfræðingur en ég hef séð margar góðar útfærslur og lausnir frá Vegagerðinni og margar hverjar í góðri sátt og samlyndi með umhverfissjónarmiðum. Ég treysti því og trúi að hæstv. ráðherra muni taka þetta veganesti frá þinginu að halda vel á málum.