144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[16:15]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég vil taka upp þráðinn þar sem ég sleppti honum áðan. Á þessu samgönguþingi var bent á, með tilvísun í áherslu um bundið slitlag á vegi sem tengja byggðir með 100 íbúa eða fleiri, að á sunnanverðum Vestfjörðum byggju 1.100 manns án tengingar með bundnu slitlagi við hringveginn.

Fyrir mér er þetta kjarninn, það er árið 2014 og á sunnanverðum Vestfjörðum er 1.100 manna samfélag sem hefur ekki tengingu með bundnu slitlagi við hringveginn. Það þýðir, eins og kom fram á samgönguþinginu, að á sunnanverðum Vestfjörðum komast íbúar ekki ferða sinna stóra hluta ársins.

Það hlýtur að vera hægt að búa til huggulegan veg í gegnum þetta svæði og umhverfi sem menn vilja vernda. Þetta kunna menn víðs vegar í heiminum, að búa til huggulega vegi í gegnum skóglendi, þannig að 1.100 manna byggð þurfi ekki að vera án bundins slitlags og að menn komist ekki ferða sinna stóran hluta ársins.