144. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2014.

Ábyrgðasjóður launa.

105. mál
[16:38]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Varðandi þingsályktunartillöguna sem hv. þingmaður vísaði til þá hafði ég heyrt af henni. Ég tel mikilvægt að sú tillaga og þær hugmyndir sem koma fram hér verði eitt af því sem verður rætt í nýskipaðri vinnumarkaðsnefnd sem er með fjölda fulltrúa, töluvert fleiri en hér er lagt til að hafa til samráð við, og menn skoði hvort nauðsynlegt sé að gera þær breytingar sem þar eru lagðar til.

Ég vil líka taka fram að ég er algjörlega sammála því sem kom fram í máli þingmannsins að virkniúrræðin eru gífurlega mikilvæg og hafa sýnt svo sannarlega á undanförnum árum að þau skila árangri. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að við höldum inni þeim fjármunum sem hafa verið til staðar til þess að fjármagna virkniúrræðin því að þau hafa skilað árangri. Hjá þessari nefnd eru raunar öll vinnumarkaðsmálin undir, þar á meðal lög um atvinnuleysistryggingar og um Ábyrgðasjóð launa. En hvað þetta mál varðar er það rammað af skuldbindingum okkar samkvæmt EES-samningnum.