144. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2014.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.

106. mál
[16:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir framsöguna. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í bráðabirgðaákvæðið sem er í hinu prentaða þingskjali en hún kom ekki að í framsögu sinni þar sem segir að ákvæði 1.–6. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 492/2011, um frjálsa för launafólks innan sambandsins, taki þó ekki gildi um atvinnu- og búseturétt ríkisborgara Króatíu fyrr en 1. júlí 2015. Hið sama gildi um aðstandendur þessara ríkisborgara samkvæmt 2. gr. laganna.

Þetta mál var lagt fyrir á síðasta þingi og hlaut þá ekki afgreiðslu en þetta ákvæði var inni og voru skiptar skoðanir um hvort það væri nauðsynlegt. Að því gefnu að þetta mál fari hratt og vel í gegnum þingið og það er ekki nema um 8–9 mánaða tímabil að ræða vil ég spyrja ráðherrann núna hvort hún telji þetta ákvæði til bráðabirgða þarft eða hvort það sé, í ljósi þess hvernig tíminn hefur liðið frá því að það var fyrst sett inn, kannski bara orðið óþarft.