144. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2014.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.

106. mál
[16:45]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði var þetta mál ekki tekið til efnislegrar umræðu í þinginu þannig að málið fór ekki til nefndar. Bráðabirgðaákvæðið er í samræmi við mál sem utanríkisráðherra flutti um að Króatía kæmi inn í samninginn varðandi Evrópska efnahagssvæðið þannig að þetta ákvæði er fyllilega í samræmi við þá frestun þar sem sneri að atvinnu- og búseturétti Króata.

Ég held að það sé bara mjög eðlilegt að nefndin fari vel yfir samræminguna. Skoðanir milli aðila vinnumarkaðarins voru skiptar um það hvort rétt væri að nýta sér það að fresta því að Króatar gætu verið með frjálsa för. Það má segja að atvinnulífið hafi sagt að það væri ónauðsynlegt en verkalýðshreyfingin sagði að það væri nauðsynlegt þannig að niðurstaðan varð sú að fara bil beggja hvað þetta varðar.

Ég held að það sé bara mjög eðlilegt að velferðarnefnd fari yfir það í meðförum málsins.