144. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2014.

meðferð sakamála.

103. mál
[16:47]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála. Í frumvarpinu er lagt til að frestað verði fram til 1. janúar 2016 að setja á fót embætti héraðssaksóknara.

Förum aðeins í gegnum forsögu þessa máls. Þann 1. janúar 2009 tóku gildi ný lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er leystu af hólmi lög um meðferð opinberra mála frá 1991. Í lögunum er meðal annars mælt fyrir um að sett skuli á fót embætti héraðssaksóknara er vera skuli nýtt stjórnsýslustig innan ákæruvaldsins. Vegna sparnaðaraðgerða, eins og við ættum að kannast ágætlega við í ljósi þess hvenær þessi lög tóku gildi, hvernig aðstæður voru í samfélaginu, var tekin ákvörðun fyrir árið 2009 að fresta því fram til 1. janúar 2010 að setja embættið á fót. Vegna áframhaldandi sparnaðaraðgerða og vinnu við endurskoðun á uppbyggingu ákæruvaldsins var því áfram frestað að setja embættið á fót, nú síðast fram til 1. janúar 2015.

Ástæða þess að við erum aftur hingað komin er sú að í innanríkisráðuneytinu hefur verið unnið að heildaráætlun fyrir réttarvörslukerfið, þar á meðal um skipan ákæruvaldsins. Er gert ráð fyrir að drög að framtíðarskipan ákæruvaldsins liggi fyrir á næstu missirum. Þannig er enn á ný nauðsynlegt að fresta gildistöku þeirra ákvæða laganna er varða embætti héraðssaksóknara um skeið þar til fyrir liggur niðurstaða í vinnu ráðuneytisins um fyrirkomulag ákæruvaldsins.

Er því lagt til að ákvæðum laganna er fjalla um embætti héraðssaksóknara verði frestað um eitt ár, fram til 1. janúar 2016.

Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að málið fari til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.

Eins og kemur fram í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis varðandi kostnaðinn á þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir því að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs frá því sem þegar hefur verið gert ráð fyrir.