144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Fyrir stuttu síðan fékk ég svör við skriflegri fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Í fyrirspurninni spurði ég hvernig fjármálastofnanir halda utan um skráningu á viðskiptasögu einstaklinga, viðskiptasögu einstaklinga sem hafa farið í gegnum greiðsluaðlögunar- eða gjaldþrotaferli. Þess ber að geta að fyrirspurninni var mjög vel svarað af hæstv. ráðherra.

Ástæða þess að ég sendi inn fyrirspurn þessa efnis til hæstv. ráðherra var sú að fjármálastofnanir hafa verið tregar til þess að láta frá sér upplýsingar um skráningu á viðskiptasögu einstaklinga hjá fjármálastofnunum, þ.e. til fyrirtækja og stofnana sem hafa aðstoðað einstaklinga í fjármálaerfiðleikum.

Flestallar fjármálastofnanirnar sem spurðar voru svöruðu fyrirspurninni mjög vel nema ein fjármálastofnun sem taldi sér ekki rétt að svara því að Alþingi hefði ekki eftirlitsskyldu gagnvart starfsemi hennar. Þess ber að geta að samkvæmt vef Bankasýslu ríkisins á ríkið samt sem áður 13% hlutdeild í þeirri fjármálastofnun sem neitaði að svara. Það gæti verið til mikilla bóta að fyrirtæki eða embætti sem aðstoða einstaklinga í fjármálaerfiðleikum hefðu heimild til að sekta fjármálafyrirtæki sem neita að afhenda umbeðnar upplýsingar, upplýsingar sem eru heimilaðar af einstaklingum í fjármálaerfiðleikum og eru nauðsynlegar til að vinna í erfiðri fjármálastöðu þeirra.

Það sem kemur fram í svarinu er að þeir sem farið hafa í gegnum greiðsluaðlögunarferli, sem tekur á bilinu eitt til þrjú ár, eða gjaldþrotaferli sem tekur u.þ.b. tvö ár, eru skráðir sem slíkir í sjö ár hjá viðkomandi bankastofnun þrátt fyrir að hafa staðið við alla gerða samninga.

Nauðsynlegt er að stjórnvöld endurskoði löggjöfina í kringum þetta ferli, t.d. greiðsluaðlögun, þannig að neytandi sem fer í gegnum þessi erfiðu spor viti nákvæmlega hvað ferlið þýðir fyrir fjárhagslega stöðu hans í framtíðinni.

Í framhaldi af þessari fyrirspurn hef ég sent nýja fyrirspurn á hæstv. ráðherra. Ég spyr hvort viðskiptabankar hafi sameiginlegan gagnagrunn (Forseti hringir.) um viðskiptasögu einstaklinga og hvort viðskiptasaga einstaklinga hafi verið færð frá gömlu þrotabúunum yfir í nýju viðskiptabankana.