144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég tek fram í upphafi máls míns að hér í ræðustól stendur gamalt og gott íhald, talsmaður gamalla og góðra gilda, og það er ýmislegt sem hefur valdið truflunum á lífi mínu á undanförnum missirum.

Til er gömul stofnun sem heitir Ríkisútvarpið og nú er svo komið að það taldi það helst geta orðið þjóðinni til bóta að fella niður hugleiðingu að morgni sem ég veit ekki til að hafi unnið nokkrum manni sálutjón.

Næst hefur stjórnendum Ríkisútvarpsins dottið í hug að færa síðasta lag fyrir fréttir fram fyrir tilkynningar þannig að á eftir síðasta laginu fyrir fréttir koma leiknar auglýsingar sem misþyrma því.

Ég spyr hér og nú: Hvaða vanda hefur síðasta lag fyrir fréttir klukkan 12.17 valdið þjóðinni? Ég spyr hér og nú og velti fyrir mér hvort þessi stofnun muni halda áfram að misþyrma dagskránni. Þar er gamall liður sem því miður allt of fáir hlusta á vegna áunnins heilsuleysis á nýársdagsmorgni, 9. sinfónían, hún er flutt þar um níuleytið að morgni. Hún hefur valdið mér ómældri gleði og vakið mér vonir um gott nýtt ár, sérstaklega þegar Þorsteinn Ö. Stephensen les óðinn til gleðinnar sem byrjar svo:

Fagra gleði, guða logi / Gimlis dóttir, heill sé þér.

Ég biðst vægðar fyrir hönd ágætra hlustenda útvarpsins. Ég bið um að ekki sé verið að skaka í dagskrárliðum sem hafa áunnið sér sess í langri dagskrá útvarpsins. Hingað og ekki lengra.