144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

53. mál
[14:25]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum. Frumvarpið hefur þrívegis verið lagt fram áður, á 140., 141. og 143. löggjafarþingi, þar sem það hlaut ekki endanlega afgreiðslu. Er frumvarpið nú lagt fram að nýju í nánast óbreyttri mynd frá síðasta löggjafarþingi.

Töluverðar breytingar voru gerðar á frumvarpinu áður en það var lagt fram á 143. löggjafarþingi. Voru þær breytingar til komnar vegna athugasemda Sambands íslenskra sveitarfélaga við frumvarpið í umsögn til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis á 141. löggjafarþingi. Í frumvarpinu er lagt til að stjórnsýsla þeirra framkvæmda sem tilgreindar eru í C-flokki verði hjá sveitarfélögunum en ekki hjá Skipulagsstofnun eins og lagt var til í frumvarpinu á 140. og 141. löggjafarþingi. Því er gert ráð fyrir að sveitarstjórn taki ákvörðun um matsskyldu þeirra framkvæmda sem falla í flokk C sem háðar eru framkvæmda- og byggingarleyfum samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki, að undanskildum framkvæmdum sem háðar eru leyfi Mannvirkjastofnunar.

Hins vegar er gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun taki ákvörðun um matsskyldu annarra framkvæmda í flokki C.

Þann 17. júlí sl. barst rökstutt álit frá ESA um að Ísland hafi ekki innleitt tilskipun 2011/92/EBE með réttum hætti. Í áliti ESA eru íslenskum stjórnvöldum gefnir tveir mánuðir til að gera viðeigandi ráðstafanir til að bregðast við álitinu, að öðrum kosti mun Eftirlitsstofnun EFTA vísa málinu til EFTA-dómstólsins að þeim tíma liðnum.

Tilgangur frumvarpsins er að koma til móts við athugasemdir ESA er varða innleiðingu Íslands á einstökum ákvæðum tilskipunar 85/337/EBE sem áður hefur verið uppfærð og er núgildandi tilskipun nr. 2011/92/EBE.

Markmiðið með frumvarpinu er að uppfylla ákvæði tilskipunarinnar með hliðsjón af athugasemdum ESA ásamt því að gera einstakar lagfæringar á gildandi lögum sem þörf er talin á í ljósi reynslunnar. Mun frumvarpið hafa þau áhrif að tilkynna þarf fleiri framkvæmdir til ákvörðunar um mat á umhverfisáhrifum.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu bárust fyrrgreindar athugasemdir ESA með bréfi, dagsettu 1. febrúar 2010. Þar er vísað til þess að í ljósi dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins hafi ESA ákveðið að hefja skoðun á innleiðingu EES/EFTA-ríkjanna á tilskipun 85/337/EBE.

Að mati ESA uppfyllir Ísland ekki ákvæði tilskipunarinnar hvað varðar viðmið þau sem fram koma í 1. og 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Fjalla athugasemdirnar um þau viðmiðunarmörk framkvæmda samkvæmt viðaukunum er varða stærð og staðsetningu þeirra.

ESA gerir enn fremur athugasemdir við orðalag nokkurra annarra ákvæða viðauka laganna ásamt athugasemdum við ákvæði þeirra er varðar mat á umhverfisáhrifum yfir landamæri og heimild ráðherra til að ákveða að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar fari fram með öðrum hætti en kveðið er á um í lögunum.

Hefur Evrópudómstóllinn fjallað um ákvæði tilskipunar 85/337/EBE í nokkrum dómum sínum og var við vinnslu frumvarpsins horft til túlkunar Evrópudómstólsins á tilskipuninni og tekið mið af niðurstöðu dómstólsins í þeim málum. Telja verður að með þeim breytingum sem lagðar eru til með frumvarpinu sé komið til móts við athugasemdir ESA.

Helstu nýmæli í frumvarpinu eru þau að framkvæmdir sem eru matsskyldar og tilkynningarskyldar til ákvörðunar um mat á umhverfisáhrifum eru flokkaðar í þrjá flokka, A, B og C.

Í flokk A falla þær framkvæmdir sem eru matsskyldar samkvæmt núgildandi lögum og finna má í 1. viðauka laganna.

Í flokki B eru þær framkvæmdir sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt núgildandi lögum og falla undir 2. viðauka laganna.

Í flokki C eru þær framkvæmdir sem fallið hafa utan viðmiðunarmarka þeirra framkvæmda sem tilgreindar eru í 2. viðauka laganna og nauðsynlegt þykir, í ljósi athugasemda ESA, að bæta við gildandi lög.

Þá er lagt til að í stað þriggja viðauka verði tveir viðaukar í lögunum.

Gert er ráð fyrir að í 1. viðauka verði tilgreindar þær framkvæmdir sem falla í A-, B- og C-flokk og í 2. viðauka er að finna þau viðmið við mat á framkvæmdum sem eru í 3. viðauka núgildandi laga með viðbótum.

Í frumvarpinu er gerð tillaga að mismunandi málsmeðferð hvers flokks framkvæmda fyrir sig. Þó er gert ráð fyrir að um óbreytta málsmeðferð verði að ræða hvað varðar matsskyldar framkvæmdir í flokki A og framkvæmdir sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum og falla í flokk B.

Hvað varðar þær framkvæmdir sem fallið hafa utan viðmiðunarmarka og falla í flokk C er gerð tillaga að einfaldari málsmeðferð en hvað varðar framkvæmdir í flokki B. Lagt er til að sveitarfélögum verði falið að taka ákvörðun um matsskyldu þeirra framkvæmda sem falla í flokk C og háðar eru byggingar- og framkvæmdaleyfum samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki.

Þar undir eru þó ekki þær framkvæmdir sem Mannvirkjastofnun veitir leyfi fyrir eins og áður var sagt.

Markmiðið með einfaldari málsmeðferð í flokki C er að stytta málsmeðferðartímann, enda um umfangsminni framkvæmdir að ræða en í flokki A og B. Eru því gerðar vægari kröfur til framkvæmdaraðila um skil á gögnum með tilkynningu um framkvæmdir í flokki C. Einnig er gert ráð fyrir styttri tímafrestum til að taka ákvörðun um matsskyldu og verður sveitarstjórnum heimilt, en ekki skylt, að leita umsagnar vegna slíkra framkvæmda.

Enn fremur eru lagðar til breytingar á einstökum ákvæðum viðauka laganna til að þau falli betur að ákvæðum tilskipunarinnar og orðalag gert skýrara.

Með frumvarpinu er lagt til að felld verði brott heimild ráðherra til að heimila annars konar málsmeðferð á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar en kveðið er á um í lögunum. Breyting þessi er lögð til vegna þeirra athugasemda ESA að ef ráðherra nýti slíka heimild muni skapast hætta á að viðkomandi framkvæmd falli ekki undir 19. gr. laganna um mat á umhverfisáhrifum yfir landamæri sem feli í sér ósamræmi við tilskipun um mat á umhverfisáhrifum.

Verður að telja rétt að fella niður þessa heimild ráðherra þar sem ekki er að finna í tilskipun um mat á umhverfisáhrifum heimild fyrir ríki til að viðhafa aðra málsmeðferð en þar er boðuð og fram kemur í III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum.

Í frumvarpinu er lögð til breyting á ákvæðum gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum yfir landamæri. Talið er að allar þær skyldur sem fram koma í ákvæðum tilskipunarinnar, ef líklegt er talið að framkvæmd hér á landi hafi áhrif yfir landamæri, sé ekki að finna í gildandi lögum.

Þar er auk þess ekki að finna ákvæði sem fjallar um viðbrögð hér á landi við tilkynningu frá öðrum ríkjum innan EES um líkleg umhverfisáhrif framkvæmda yfir landamæri en slíkt ákvæði gerir íslenskum stjórnvöldum og almenningi kleift að koma að athugasemdum við framkvæmdir í öðrum EES-ríkjum sem líklegar eru til að hafa áhrif hér á landi.

Lagt er því til að lögunum verði breytt á þann hátt að ákvæði tilskipunarinnar verði tekin upp með nákvæmari hætti en nú er gert. Ljóst verði því hverjar skyldur Íslands eru gagnvart öðrum EES-ríkjum þegar líklegt er talið að framkvæmdir hér á landi hafi áhrif yfir landamæri ásamt því að fyrir liggi hvernig stjórnvöld og almenningur hér á landi geti komið að athugasemdum við framkvæmdir í öðrum ríkjum innan EES sem líklegar eru til að hafa áhrif hér á landi.

Að lokum er lögð til breyting á lögum nr. 105/2006 sem gilda um umhverfismat þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytinga á þeim sem marka stefnu er varða leyfisveitingar til framkvæmda í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Lög nr. 105/2006 innleiddu tilskipun 2001/42/EB, um umhverfismat áætlana, og byggja því á þeirri tilskipun. Samkvæmt tilskipuninni er heimilt að undanskilja í lögunum óverulegar breytingar á skipulagsáætlunum enda séu þær ekki líklegar til að hafa í för með sér veruleg áhrif á umhverfið.

Þar sem framkvæmdir sem falla í flokk C verða tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar á framkvæmdastigi er það talið óþarflega íþyngjandi fyrir stjórnsýsluna að umhverfismat fyrir óverulegar breytingar á skipulagsáætlunum muni einnig fara fram á skipulagsstigi eins og verður ef lögum um umhverfismat áætlana verður ekki breytt.

Er hér gerð sú tillaga að þessi heimild tilskipunarinnar verði nýtt og að undanskildar umhverfismati áætlana verði óverulegar breytingar á skipulagsáætlunum.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.