144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

53. mál
[14:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það svo sem skerpir bara á þeim skilningi sem ég hafði á afstöðu hans fyrir þessari breytingu. Mig langar samt að biðja hann um að dýpka aðeins betur svar sitt.

Mig langar að spyrja sem svo: Hvað gerist ef í ljós kemur að um verulegan mun verður að ræða á milli tveggja sveitarfélaga þar sem eitt sveitarfélag hefur tilhneigingu til að túlka rúmt og annað sveitarfélag til að túlka þröngt þegar um er að ræða dýrmæta eða mikilvæga uppbyggingu að einhverju leyti? Þá er ég ekki bara að tala um þá þætti sem lúta að skipulaginu sem slíku heldur þegar sýnt þykir að málsmeðferð eins sveitarfélags þrengir verulega að möguleikum þess ef borið væri saman við möguleika næsta sveitarfélags við eða aðliggjandi sveitarfélags. Eitt af því almikilvægasta í þessari löggjöf hlýtur að vera að tryggja að jafnræði sé fyrir hendi óháð búsetu.

Ég er ekki eins bjartsýn og ráðherrann að því er varðar að þessu sé best fyrir komið með þessu móti eins og hefur komið fram. Ég vænti þess auðvitað að við deilum þeirri afstöðu að nefndin fari ítarlega yfir öll sjónarmið með það markmið sem ég vona að við ráðherrann deilum líka að jafnræði verði tryggt að því er varðar möguleika til uppbyggingar athafna- og atvinnulífs óháð búsetu.