144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

jarðalög.

74. mál
[14:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á jarðalögum, nr. 81/2004, með síðari breytingum, sem er þingskjal 74 og 74. mál.

Frumvarpið er byggt á tillögu nefndar sem skipuð var í desember 2012. Nefndinni var m.a. falið að yfirfara skipulagsáætlanir og með hvaða hætti unnt væri að gæta betur að landbúnaðarhagsmunum og vernd ræktunarlands við skipulagsgerð sveitarfélaga sem og aðra áætlanagerð. Markmið frumvarpsins er að breyting á notkun landbúnaðarlands yrði að hluta til óháð leyfi ráðherra og meðferð slíkra mála verði í höndum sveitarfélaga sem fara með skipulagsvald samkvæmt skipulagslögum, nr. 123/2010.

Misbrestur hefur verið á að gildandi ákvæðum í 6. og 7. gr. jarðalaga, nr. 81/2004, hafi verið framfylgt, en reglulega berast ráðuneytinu umsóknir um að land sé leyst úr landbúnaðarnotum. Formlega stefnu hefur skort við meðferð slíkra umsókna og hefur land verið leyst úr landbúnaðarnotum ef umsögn sveitarfélags hefur verið jákvæð, enda hefur verið litið svo á að sveitarfélögin séu best til þess fallin að fjalla efnislega um málin á grundvelli staðarþekkingar, landbúnaðarþarfa svæðisins og framtíðarsýnar. Þá skarast efni 7. gr. jarðalaga og ákvæði skipulagslaga, og með frumvarpinu er gert ráð fyrir að leysa úr þeirri skörun.

Gert er ráð fyrir að sveitarfélög taki ákvarðanir um breytta notkun lands sem er skipulagt til landbúnaðarnota. Sveitarfélögum er þannig heimilt að breyta landnotkun á landi sem er minna en fimm hektarar. Sé um að ræða land sem er stærra en fimm hektarar, um sé að ræða gott ræktanlegt land, land sem hentar vel til landbúnaðar eða land sem vegna legu sinnar er mikilvægt vegna matvælaframleiðslu ber sveitarfélögum að óska eftir heimild ráðherra til að breyta landnotkun. Þannig er ráðherra falið að gæta þeirra mikilvægu hagsmuna sem felast í því að til staðar sé land til landbúnaðar og matvælaframleiðslu.

Í frumvarpinu er einnig mælt fyrir breytingar á ákvæðum 36.–38. gr. jarðalaga sem fjalla um sölu ríkisjarða. Breytingin felur í sér að fjallað verði um kauprétt ábúenda með skýrari hætti en verið hefur. Einnig er gert ráð fyrir að verði frumvarpið að lögum muni það styrkja framkvæmd laganna við sölu ríkisjarða og fækka matskenndum ákvörðunum við sölu ríkisjarða.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og ástæðum fyrir framlagningu frumvarpsins og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.