144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

umferðarlög.

102. mál
[14:57]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna.

Mig langar að spyrja um þann þátt er varðar reglubundna endurmenntun atvinnubílstjóra og þá fyrst og fremst vegna þess að fram kom í máli hæstv. ráðherra að töluvert samráð hafi átt sér stað við þennan hóp en að fram hafi komið töluvert miklar athugasemdir úr þeim herbúðum við framlagningu málsins á fyrri stigum.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Í hverju felst það samráð sem hún vísar til? Hvaða breytingum tók málið við það samráð? Ég heyri það á hæstv. ráðherra að hún telur að þegar hafi náðst eitthvað sem nálgast sátt í málinu, sem er annað en það sem ég heyri. Mér finnst ég enn þá heyra að töluverður urgur sé í þessum herbúðum þannig að ég bið hæstv. ráðherra að dýpka aðeins skilning minn á því.