144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

15. mál
[15:22]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson hreyfir við ákaflega merkilegu máli sem mér er hugleikið, en ég hef stundum hugleitt hvort það sé ekki til miklu einfaldari lausn en að hugað verði að framtíðargjaldmiðli. Ég tel að fyrirtæki og atvinnurekstur í þessu landi hafi gengið nokkuð hart fram í þeim efnum sjálf og valið sér gjaldmiðil, hvert með sínum hætti, og það eru nokkur stór fyrirtæki í landinu sem hafa sömuleiðis ákveðið frítt spil innan gjaldeyrishafta og hafa einnig valið sér gjaldeyri, sem sagt varasjóð. Það eru fyrirtæki eins og margnefnd Landsvirkjun og Flugleiðir, Icelandair, sem þurfa að halda stóra sjóði sem hafa vafalaust valið sér gjaldmiðil til þess að halda þá sjóði.

Margt af því sem um er spurt í þessum sex stafliðum hér, gerist það ekki af sjálfu sér, hv. þingmaður? Þarf að ákveða þetta ofan frá? Getum við ekki bara haldið áfram að nota krónuna innan lands til að borga fyrir kaffi og vínarbrauð?