144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

15. mál
[15:23]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er áhugaverð spurning, það er margt sem er að gerast. Við búum í raun við kerfi margra gjaldmiðla. Við erum með verðtryggða krónu sem við notum í lánaviðskiptum, sem er beintengt við alls konar hluti sem gerast í útlöndum, er eins konar erlend mynt. Svo erum við með krónu, þá sem við notum til að kaupa vínarbrauð o.fl. Svo eru fyrirtækin að nota erlendar myntir, eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir.

Ég held að þessar kringumstæður ættu einmitt að sýna okkur að það er mikilvægt fyrir hið opinbera að horfast í augu við raunveruleikann, horfast í augu við staðreyndirnar. Ein staðreyndin er sú að fjármagn leitar í aðra gjaldmiðla, innlendir og erlendir eigendur krónueigna — þess vegna erum við með höft — vilja stunda viðskipti í öðrum myntum.

Ef ég skil hv. þingmann rétt mundi ég alla vega vilja segja að það er mat okkar í Bjartri framtíð að þú getur ekki flengt viðskiptalífið bara til þess að nota krónu. Það boð, miðað við hvernig aðstæður eru og hvernig raunveruleikinn er, getur í öllu falli ekki komið að ofan, það er dálítið eins og ætla sér að flengja hafið til hlýðni.