144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

15. mál
[15:27]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað einstaklega táknrænt og segir sína sögu að það er þorskur á krónunni. Íslenska krónan hefur að mörgu leyti átt í ágætu gagnkvæmu ástarsambandi við sjávarútveginn um áratugaskeið á Íslandi. Sveiflur hennar, skipulagðar gengisfellingar hafa oft hentað sjávarútveginum vel í gegnum tíðina.

Það er rakið ágætlega í skýrslu Seðlabankans um valkosti í gjaldmiðilsmálum að einn höfuðvandi íslensks atvinnulífs er einhæfni. Og vegna þess hvað þetta samband krónu við þorskinn hefur verið sterkt hefur krónan leitt til og stutt þá einhæfni. Ég mundi vilja að á krónunni væri mynd af mannsheila, einfaldlega til að undirstrika að við þurfum gjaldmiðil sem hentar því sem ég tel vera meginforsendu blómlegs mannlífs á 21. öldinni á Íslandi, sem er hugvit. Ég held að ef við ætlum að vaxa eitthvað og dafna á 21. öldinni verði að vaxa hér fjölbreytt flóra nýsköpunarfyrirtækja sem byggja á hugviti og tækni og þau þurfa stöðugleika. Þau byggja á því að geta gert áætlanir, þau þurfa viðskiptafrelsi, þau geta ekki búið í höftum. Það væri ákveðinn sigur miðað við það hversu erfiðlega gengur að ræða framtíðarfyrirkomulag gjaldmiðilsmála ef við gætum þó alla vega breytt myndinni á krónunni.