144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

15. mál
[15:33]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Björt framtíð vill klára samningana við Evrópusambandið og vonast til þess að þeir samningar verði góðir og verði samþykktir í þjóðaratkvæðagreiðslu og mundi þá vilja taka upp evru. Það er stefna Bjartrar framtíðar eins og hún hefur verið samþykkt.

Auðvitað verðum við að hafa alls konar fyrirvara á þessari stefnu, við vitum ekkert um það hvort samningarnir við Evrópusambandið verða góðir eða ekki, það þarf að samþykkja þá fyrst. Það væri óábyrgt að segja bara að við ættum að taka upp evru og hafa ekkert plan B í vasanum ef þjóðin mundi ekki vilja ganga í Evrópusambandið. Á þessum tímapunkti teljum við því alla vega skynsamlegast að meta hvaða kostir það eru og hvert við ætlum að stefna sem þjóðfélag í þessum málum.

Ef við mættum ráða ein, sem gerist kannski einhvern tíma, ég veit það ekki — nei, jæja, segjum sem svo að við mundum ráða ein, þá mundum við klára samningana við Evrópusambandið og leggja þá fyrir þjóðina. Þeir samningar væru góðir, ég er nokkuð viss um það, ef við hefðum eitthvað um samningaviðræðurnar að segja, og þjóðin mundi vonandi samþykkja þá. Síðan færum við inn í ERM II með þeirri nauðsynlegu aðlögun sem felst í því fyrir íslenskt efnahagslíf. Það mundi birtast í lífskjörum hér innan lands í lægri vöxtum, betra verðlagi, betri möguleikum til að bæta lífskjör, viðskiptafrelsi. Og síðan, eftir að hafa verið í ERM II um nokkurt skeið og náð þeim markmiðum sem þar er kveðið á um, mundum við taka upp evru. Ekki fullkomin lausn, vegna þess að margar áskoranir mundu þá blasa við. Lágt vaxtastig getur til dæmis leitt til ofþenslu og koma þarf böndum á það. Það þarf að passa sig að kreppa eftir ofþenslu birtist ekki í (Forseti hringir.) gríðarlegu atvinnuleysi. Áskoranirnar verða því alltaf einhverjar og hver er sinnar gæfu smiður, það má aldrei gleyma því.