144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

15. mál
[15:45]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég hef lagt það í vana minn að tala bara fyrir Samfylkinguna en leyfi öðrum að tala fyrir sig því mér þykir ekki rétt að vera í útleggingum á afstöðu annarra. Þegar ég gagnrýni aðra flokka fyrir þeirra stefnu þá túlka ég auðvitað þeirra stefnu eins og hún birtist mér. Að því er varðar muninn á stefnu okkar í gjaldmiðilsmálum og Bjartrar framtíðar ætla ég að leyfa hv. þingmanni að spá í hann og svo talar þessi tillaga frá þingflokki Bjartrar framtíðar fyrir stefnu þess þingflokks.

Stefna Samfylkingarinnar er alveg skýr. Við teljum að efna þurfi fyrirheitið sem gefið var í þessum sal með samþykkt lagafrumvarps Skúla Thoroddsens árið 1901, um greiðslu verkkaups í gjaldgengum peningum. Það sé ekki boðlegt að hafa þá umgjörð utan um peningamálastjórn í landinu að fólk viti ekki verðmæti launa sinna frá einum degi til annars. Það er óþolandi aðför að lýðréttindum fólks, óþolandi aðför að borgararéttindum fólks og óþolandi aðför að frjálsri verkalýðshreyfingu. Og það er ekki verjandi fyrir okkur sem verkalýðsflokk að sætta okkur við að þau réttindi sem menn glöddust yfir að fá 1901 og nutu vissulega meðan íslenska krónan var gjaldgeng fram til 1920 þegar hún var slitin úr samhengi við hina dönsku krónu, séu fjær okkur nú en við upphaf skipulagðrar verkalýðshreyfingar í landinu í upphafi 20. aldar. Það er óþolandi staða. Við munum ekki unna okkar hvíldar fyrr en við höfum tryggt launafólki á Íslandi nákvæmlega þessi réttindi, greiðslu verkkaups í gjaldgengum peningum.