144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[15:58]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um vistkerfi fyrir hagnýtingu internetsins og réttindavernd netnotenda. Ég vil í upphafi þakka þingmönnum allra flokka sem eru á málinu.

Tillagan felur í sér að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp til að móta stefnu um að skapa á Íslandi vistkerfi eins og best verður á kosið fyrir hagnýtingu internetsins og annarrar upplýsingatækni ásamt því að verja réttindi netnotenda og gera svo nauðsynlegar lagabreytingar til að innleiða stefnuna.

Ég gríp niður í þingsályktunartillöguna, í II. lið, í tilefni og nauðsyn þessarar nýju stefnu. Við byrjum þar:

Í úttekt alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company á hagkerfi Íslands kemur fram að áætlun um sjálfbæran vöxt fyrir Ísland verði að móta með hliðsjón af öllum atvinnugreinum og mikilvægt sé að íslenskir hagsmunaaðilar komi sér saman um tækifæri landsins til vaxtar ásamt áætlun til að nýta þau. Ísland er aftur að koma út úr kreppu og aftur er þörf á nýjum drifkröftum vaxtar í alþjóðageira atvinnulífsins. Í tillögum verkefnisstjórnar samráðsvettvangs um aukna hagsæld kemur fram að með hliðsjón af vaxtarskorðum auðlindagreina muni alþjóðageirinn þurfa að standa undir vaxandi hluta útflutnings. Jafnframt kemur þar fram að í alþjóðageiranum sé að finna stærstu vaxtartækifæri íslensks atvinnulífs og að þar séu mikil tækifæri til úrbóta með réttum hvötum og hagfelldum skilyrðum fyrir nýsköpun. Rannís bendir ásamt Vísinda- og tækniráði á svipaða stöðu, að vaxandi áhersla á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda takmarki mjög þá verðmætasköpun sem fram að þessu hefur verið byggð á aukinni sókn í þær. Verðmætasköpun verði því að byggjast á hugviti fremur en aukinni nýtingu náttúruauðlinda.

Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að skapa umhverfi sem hvetur til nýsköpunar í öllum atvinnugreinum sem forsendu langtímahagvaxtar. Skapa þurfi starfsumhverfi sem ýti undir fjárfestingu og fjölgun starfa, ekki síst hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, og bæti aðgengi sprotafyrirtækja að hlutafé ásamt því að einfalda stuðningsumhverfið, m.a. með rafrænni stjórnsýslu og hagnýtingu upplýsingatækni.

Hvers vegna skiptir þetta máli fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki? Förum í innganginn og tölum um þau tækifæri sem eru í boði fyrir því að skipa starfshóp sem þessi stóru ráðgjafarfyrirtæki ráðleggja öllum ríkisstjórnum að gera, að skipa starfshóp sem skoðar þessar tæknibreytingar og leggur til breytingar á lögum og reglum til að geta skapað vistkerfi sem hagnýtir tækifærin sem best. Þessi starfshópur þarf stöðugt að vera að störfum og ráðleggja ráðherra og löggjafarnefnd vegna þess að breytingarnar eru það örar að ef þetta er ekki stanslaust gert og unnið í takti við breytingarnar munu ríki heltast úr lestinni.

Í inngangi greinargerðarinnar segir:

Hvorki einstaklingar, fyrirtæki né ríkisstjórnir geta litið fram hjá getu internetsins til að bjóða upp á meiri hagsæld og verðmæti og það á breiðari grunni en nokkur efnahagsþróun frá iðnbyltingunni. Þannig hefst skýrsla The Boston Consulting Group 2012 um þau tækifæri sem internetið hefur upp á að bjóða. Í skýrslu McKinsey Global Institute 2011 kemur svo fram að í dag skapi internetið 20% af hagvexti þróaðra hagkerfa. Og takið eftir: 75% af efnahagslegum áhrifum internetsins eiga sér stað í hefðbundnum iðnaði.

Þetta er ekki bara spurning um einhver internetfyrirtæki eða slíkt, þetta er spurning um tæknibyltingu sem hefur orðið til þess að 20% af hagvexti heimsins í dag eru til komin vegna internetsins. 75% af verðmætaáhrifunum eru í hefðbundnum iðnaði.

Þetta kemur líka fram í rannsókn sem McKinsey gerði á 4.800 fyrirtækjum innan G8 og fleiri ríkja sem samsvara 70% af hagkerfi heimsins. Lítil og meðalstór fyrirtæki vaxa tvöfalt hraðar, tvöfalda starfsfólkið og tvöfalda útflutningstekjur sínar, þau sem nýta sér internetið í miklum mæli í samanburði við þau sem nýta það í svolitlum mæli eða litlum.

Á þessu kjörtímabili mun hagkerfi internetsins nærri tvöfaldast og yrði þá fimmta stærsta hagkerfi heims ef það væri þjóðríki. Internetið er í dag grunnþáttur hagvaxtar og áhrif þess eru mikil og aukast hratt.

Þetta kemur allt fram.

Rétt eins og í iðnbyltingunni mun velmegun vaxa hraðast í þeim löndum sem fyrst skapa kjörlendi til að nýta þessa nýju tækni til fulls. Til að svo megi verða hér á landi þarf að innleiða heildstæða stefnu svo fólk, fyrirtæki og fjárfestar staðsetji sig á Íslandi til að nýta sem best tækifæri nýju tækninnar.

Samkvæmt rannsóknum McKinsey Global Institute er aðeins hægt að hámarka hagnýtingu internetsins með því að skapa því öflugt vistkerfi. Í þeim löndum sem best hefur gengið að byggja upp þetta vistkerfi er það gert á fjórum undirstöðum:

1. Gera viðskiptaumhverfið aðlaðandi.

2. Byggja upp háhraðainnviði fyrir internetið og aðra upplýsingatækni.

3. Tryggja gott aðgengi að fjármagni fyrir frumkvöðla og nýsköpun. Þetta er kannski skiljanlega akkillesarhæll okkar á Íslandi í dag.

4. Mennta og laða að fólk með nauðsynlega þekkingu, það þarf vel menntað fólk. Fólk flykkist í tölvunarfræði sem er einn af þeim stóru þáttum sem til þarf, en við þurfum að gera betur við það svo sérmenntað fólk með sérþekkingu utan Evrópusambandsins geti komið og starfað á Íslandi.

Í þessari þingsályktunartillögu er iðnaðar- og viðskiptaráðherra falið að skipa starfshóp þeirra hagsmunaaðila sem kalla þarf að borðinu til að skapa kjörlendi fyrir hagnýtingu internetsins og annarrar upplýsingatækni ásamt vernd á réttindum notenda. Starfshópurinn hefði það markmið að móta heildstæða stefnu fyrir Ísland í þessum málum. Stjórnvöldum væri svo falið að leggja fram nauðsynlegar lagabreytingar til að stefnan næði fram að ganga.

Í tillögunni sjálfri til þingsályktunar kemur fram:

a. að í þessu skyni verði skipaður starfshópur til að vinna að markmiðum tillögunnar þar sem Samtök upplýsingatæknifyrirtækja, Samtök íslenskra gagnavera, samtök leikjafamleiðenda, Viðskiptaráð Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Klak Innovit, IMMI, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og innanríkisráðuneytið skipi einn aðila hver.

Þetta eru þeir aðilar sem þurfa að koma að borðinu til að ná fram þessu fjórþætta markmiði sem ég nefndi áðan, til þess að skapa það vistkerfi sem best hefur reynst.

Ég átti eftir að lesa upp að háskólasamfélagið þyrfti líka að koma að þessu. Jafnframt komi þá Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst sér saman um skipan eins fulltrúa. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipar svo formann starfshópsins.

Í því skyni að ná fram þessu markmiði segir í lið b að þessi starfshópur skuli líta til löggjafar annarra ríkja með það að markmiði að sameina það besta til að skapa á Íslandi vistkerfi eins og best verður á kosið fyrir hagnýtingu internetsins og annarrar upplýsingatækni ásamt vernd á réttindum notenda, þar með talið friðhelgi einkalífsins og upplýsingafrelsi.

Í greinargerðinni og fylgiskjali sem var unnið af starfshópi sem ég leiddi fyrir Ragnheiði Elínu, hæstv. ráðherra í atvinnuvegaráðuneytinu, um hagnýtingu internetsins varðandi atvinnuuppbyggingu og nýsköpun kemur fram að friðhelgi einkalífs og upplýsingafrelsi er meðal þess sem þessi stóru alþjóðlegu ráðgjafarfyrirtæki og World Economic Forum sem samstarfsvettvangur eru búin að átta sig á og benda á að taka verði tillit til þess. Við sjáum líka að ef ekki er tekið tillit til friðhelgi einkalífsins á okkar tímum þegar það varðar internetið, upplýsingatækni og almennt upplýsingfrelsi tapast gríðarleg tækifæri til uppbyggingar atvinnulífs.

Í c-lið segir að gera verði úttekt á lagaumhverfinu svo hægt sé að afmarka viðfangsefnið og undirbúa lagabreytingar eða nýja löggjöf sem stjórnvöld leggi fram.

Markmið vinnunnar er að skapa, innleiða og uppfæra heildstæða stefnu um kjörlendi á Íslandi fyrir hagnýtingu internetsins og annarrar upplýsingatækni ásamt vernd á réttindum notenda. Við starfið á að leita aðstoðar erlendra sem innlendra sérfræðinga eftir þörfum.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra upplýsi svo Alþingi um framfylgd verkefna innan Stjórnarráðsins, samanber a-, b- og c-lið 2. mgr., á sex mánaða fresti og skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshópsins 1. maí ár hvert.

Förum yfir í helstu atriði sem þarf að framkvæma, III. lið:

Fyrstu skrefin í stefnumótuninni eru nú hafin á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í starfshópi skipuðum af iðnaðar- og viðskiptaráðherra, eins og ég nefndi áðan. Starfshópurinn sem skipaður verður á grundvelli þessarar þingsályktunartillögu skal byggja á þeirri vinnu. Þær tillögur, greinargerð starfshópsins, eru fylgiskjal með þingsályktunartillögunni.

Starfshópurinn skili síðan iðnaðar- og viðskiptaráðherra greinargerð með tillögum til úrbóta á þriggja mánaða fresti. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra upplýsi Alþingi um framfylgd verkefna innan Stjórnarráðsins, samanber a-, b- og c-lið, á sex mánaða fresti, eins og kom fram áðan, og skili skýrslu til Alþingis eins og nefnt var.

Fjármögnun starfshópsins, IV. liður:

Verkefni það sem lagt er til í þessari þingsályktunartillögu þarfnast fjármagns. Hér er ekki aðeins lagt til að lög og reglur verði endurskoðuð á skrifstofum ráðuneytanna heldur að hugsað verði fyrir nýju heildstæðu og samþættu vistkerfi fyrir internetið og aðra upplýsingatækni sem skapar kjörlendi fyrir hagnýtingu þessarar nýju tækni og réttindavernd notenda. Því er afar mikilvægt að verkefninu verði veitt það fjármagn sem það krefst svo hægt sé að standa að því á faglegan og metnaðarfullan hátt.

Ég fer aftur í II. liðinn, um tilefni og nauðsyn nýrrar stefnu, og held áfram þar:

Á heimsviðskiptaráðstefnunni í fyrra kom fram að upplýsinga- og fjarskiptatækni væri í dag viðurkennd sem lykiluppspretta nýsköpunar sem auki hagvöxt og fjölgi störfum, ásamt því að hafa jákvæð áhrif á langtímasamkeppnishæfni og samfélagslega velferð. Viðskiptaráð hefur bent á að með atvinnustarfsemi á internetinu hafi orðið til önnur efnahagslega mikilvæg tenging við alþjóðlega markaði. Sölutekjur fyrirtækja í gegnum netið hafi aukist um rúm 90% á árunum 2000–2011 og á sama tíma hafi hrein afkoma tvöfaldast. Um verulegar fjárhæðir sé að ræða og mikill ávinningur í því fólginn fyrir Ísland að auka umfang þessarar atvinnustarfsemi. Ráðið leggur til að lagaumhverfið verði endurskoðað til að bæta frekar möguleika atvinnustarfsemi á internetinu til aukinnar nýsköpunar og uppbyggingar verðmæta og að þar ættu hagsmunir notenda að vera í fyrirrúmi án þess þó að réttindi rétthafa væru virt að vettugi. Takist vel til gæti samkeppni, erlent tekjustreymi og fjölbreytni útflutnings aukist verulega.

Í greinargerð starfshóps iðnaðar- og viðskiptaráðherra í vor um hagnýtingu internetsins í þágu nýsköpunar og atvinnuþróunar kemur þetta fram, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að viðskiptaumhverfið sé að breytast verulega með tilkomu internetsins og upplýsingatækninnar hefur löggjöf á þessum sviðum ekki fylgt eftir þeirri hröðu þróun sem verið hefur undanfarin ár. Endurskoða þarf lög og reglur svo ekki séu til staðar hindranir sem letja nýsköpun og framþróun á sviði internetsins og upplýsingatækni. Að sama skapi þarf að huga vel að áhrifum og afleiðingum nýrrar lagasetningar og meta hvort verið sé að hamla vexti og viðgangi fyrirtækja að óþörfu. Mikilvægt er að tryggja að hér á landi sé sterkt en sveigjanlegt lagaumhverfi sem styður við atvinnuþróun og nýsköpun, fylgir þróun í tæknigeiranum en tryggir jafnframt friðhelgi einkalífs og upplýsingafrelsi.“

Í stefnu ríkis og sveitarfélaga um upplýsingasamfélagið 2013–2016 segir að staða Íslands sé í stuttu máli sú að almenningur sé tilbúinn að nýta sér þá þjónustu sem í boði er, góðir fjarskiptainnviðir séu fyrir hendi, almenningur eigi tækin og sé tengdur en opinberir aðilar nýti ekki nægjanlega vel þau tækifæri sem felist í þessari stöðu.

Nú er ég að renna út á tíma þannig að ég þakka bara öllum sem hafa tekið þátt í starfinu og legg til að málið gangi til atvinnuveganefndar og síðari umr.