144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[16:28]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka ræðuna og sérstaklega þennan punkt um jafna aðgengið. Ég mæli einmitt á morgun fyrir þingsályktunartillögu um jafnt aðgengi að internetinu, að það verði raunverulegt „net neutrality“ eða nethlutleysi á Íslandi. Við getum ekki mælst til þess að það sé jafnt aðgengi sums staðar en ekki fyrir alla.

Þegar ég byrjaði að vesenast á netinu 1995 var það minn draumur að það yrði einmitt þannig að allir hefðu jafnt aðgengi að netinu, fólk gæti unnið hvar sem er, lært hvar sem er og það gæti flutt fyrirtækin sín hvert sem er eða unnið hjá einhverju fyrirtæki á Akureyri þó að það byggi í Reykjavík eða öfugt. En reyndin hefur ekki verið þannig. Mig langaði því að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki einmitt leið með því að skýra vel hvernig við eigum að finna lausn — og við verðum að finna lausn. Það er ekki nóg að hafa nefnd heldur þarf að taka pólitíska ákvörðun um hvernig eigi að skapa jafnt aðgengi. Mig langaði bara að hvetja þingmanninn til að styðja okkur í því að koma þessari þingsályktunartillögu í gegnum þingið alla leið.