144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[16:30]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að vita, ég var einmitt að spyrja um dagskrá morgundagsins áðan, það lá ekki alveg fyrir þegar ég spurði. Þetta er auðvitað það sem sérstaklega við sem búum úti á landsbyggðinni og í hinum dreifðu byggðum höfum orðið svo mjög vör við innan okkar kjördæma og ég get nefnt, af því að ég sit í fjárlaganefnd, að þetta var eitt af aðalmálum sveitarstjórnarfólks í fyrra þegar það kom á fundi til okkar. Í fyrsta lagi voru það nettengingar og svo voru það vegasamgöngur.

Við getum alltaf verið með góð áform og eins og ég lauk máli mínu á hér áðan þá er ég sannfærð um að þetta er afskaplega gott mál og mjög þarft, en þá skiptir auðvitað jafnt aðgengi höfuðmáli. Öðruvísi getur jöfnuður ekki náðst nema við höfum þetta aðgengi. Þess vegna hef ég velt því upp og sagt að það voru mistök að selja grunnnetið frá. Fyrirtækin sem hafa þessi mál með höndum í dag sjá sér ekki í hag í því að leggja grunnnetið út til sveita og til minni byggðarlaga. Þar býr fólk við það að það sendir tölvupóstinn af stað og fer út að mjólka og kemur inn aftur og þá er hann loksins farinn. Maður trúir þessu ekki eiginlega árið 2014 en þetta er í alvörunni svona. Það er auðvitað óásættanlegt. En þetta mál er gott og ég kem örugglega til með að taka þátt í umræðunni á morgun í máli hv. þingmanns sem hér kom í andsvar við mig.

Við þurfum að sammælast um að sjá til þess að nefndin skili einhverju af sér sem er framkvæmanlegt og það tengist auðvitað fjárlögunum Þess vegna er mjög mikilvægt, mér skilst að niðurstaða nefndarinnar komi væntanlega fyrir 2. umr. fjárlagafrumvarpsins, að við getum staðið saman í að tryggja að í þetta fari fjármagn.