144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[16:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þegar við fjöllum um svona stór mál eins og heilt nýtt vistkerfi þarf að sjálfsögðu að huga að mörgum hlutum. Það er mjög ánægjulegt að sjá að við erum komin í ferli með mjög marga af þeim þáttum sem tengjast saman og kallast á. Það verður aldrei í alvörunni vistvænt net á Íslandi ef allir hafa ekki jafnan aðgang að netinu. Við ætlum nú sannarlega ekki að fara að búa bara til umgjörð fyrir erlenda aðila til að geta unnið hér, við þurfum jafnframt að huga að öllu því hæfa fólki sem hér býr þannig að það geti unnið hér. Svar okkar var að vinna að máli sem kemur hér til umræðu á morgun um jafnt aðgengi að internetinu.

Þessi þingsályktunartillaga kallar á vistkerfi fyrir hagnýtingu internetsins, og það sem hefur kannski ekki verið mikið rætt um en það er réttindavernd netnotenda. Þetta er svo mikilvægt. Viljum við vera með fjarþjónustu á milli lækna og sjúklinga án þess að það sé tryggt að þær upplýsingar og þau samskipti séu örugg? Við verðum að tryggja réttindavernd netnotenda samhliða því sem við aukum hagvöxt á netinu, aukum hæfni til þess að þróa þetta vistkerfi. Það er því gríðarlega mikilvægt þegar verður fjallað um þingsályktunartillöguna í nefndinni að það verði sérstaklega litið til þessa þáttar, þó að það fari kannski ekki mikið fyrir honum í tillögunni. Það er nauðsynlegt þegar málið verður tekin fyrir í nefndinni að fólk skoði þingsályktun sem hér var samþykkt árið 2010, sem jafnan er kölluð IMMI. Þar er farið yfir suma þessa þætti.

Netið er í stöðugri þróun og það þróast mjög hratt. Þess vegna er ekki síður mikilvægt að við drögum ekki lappirnar í þessu því að þá munum við missa af tækifærinu. Við höfum gríðarlegan meðbyr með þessari þingsályktun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi þar sem var litið til þess að við mundum búa til skjól fyrir þá sem vildu hýsa viðkvæmar upplýsingar eins og t.d. gögn frá Human Rights Watch eða fréttir sem eru óþægilegar fyrir stórfyrirtæki og þau vilja breyta o.s.frv. En jafnframt er hún um að eyða þeirri lagalegu óvissu sem er til staðar um til dæmis hvað eigi að geyma, hvenær megi hætta að breyta fréttum og lagalegri óvissu um vernd heimildarmanna, sem nú hefur verið eytt. Það vantar skýrari lög og því miður er það þannig að upplýsingalög okkar uppfylla ekki ýtrustu kröfur sem gerðar voru í þeirri þingsályktun. Við verðum alltaf að passa okkur á því að þegar við leggjum það í hendurnar á ríkisvaldinu, á stjórnsýslunni, að búa til lög eftir okkar formúlu sem þingið samþykkir, að þau komi til baka eins og þeim var falið að gera þau úr garði. Við erum ekki að gera ríkisvaldinu einhvern greiða. Við erum að fela því verkefni sem þingið er sammála um. Þess vegna er það ekki síður mikilvægt þegar og ef þetta mál fær þannig umfjöllun í nefnd að því sé fylgt eftir á þann hátt að málinu verði ekki breytt í eitthvað sem það er ekki eða lögin í kringum það verði allt of veik.

Það má segja að vistkerfið fyrir hagnýtingu internetsins eða netvæns Íslands sé hluti af stórri framtíðarsýn um Ísland og hvaða hlutverki það getur gegnt í stóra samhenginu. Framtíðarsýn sú sem við hófum okkar vegferð með árið 2010 er ekki enn þá búin að vera, en það eru miklar áhyggjur úti í heimi, sem þýðir að fólk bíður með að koma hingað með fyrirtækin sín eða sækja sér þjónustu á Íslandi út af þeirri lagalegu óvissu sem er enn þá til staðar og út af því hvernig núverandi ríkisstjórn dregur lappirnar í þessum efnum.

Til þess að vera aðeins á jákvæðu nótunum er vert að hafa það í huga að samkeppnishæfni okkar er mikil út af staðsetningu landsins og hitastiginu hér, það gefur okkur mjög mikið forskot. Það var unnin rannsókn á vegum grænu grúppunnar á Evrópuþinginu sem hét „Islands of Resilience“, þar sem var farið yfir hvað þyrfti að vera til staðar til að gera land að heppilegum stað til hýsingar og til geymslu gagna. Ísland var þá, miðað við þá löggjöf sem við höfum í dag, eitt af þeim löndum sem komu hvað best út. Það er svolítið merkilegt. En við megum ekki gleyma því að þó að við séum mjög samkeppnishæf í dag getur það forskot sem við höfum horfið mjög hratt.

Það var til dæmis þannig í Kanada að þeir voru með bestu mögulegu upplýsingalöggjöf í heiminum fyrir hinn stafræna tíma. Síðan í hittiðfyrra voru Kanadamenn komnir með eina verstu upplýsingalöggjöf í heiminum út af því að þeir leyfðu lögunum ekki að þróast með tíðarandanum. Og það er svo gríðarlega mikilvægt þegar við erum að vinna að lögum í síbreytilegum heimi að það sé innbyggt í þau að þau fylgi tíðarandanum þannig að þau úreldist ekki strax.

Ég vil því leggja það til við nefndina sem fær þetta mál til umfjöllunar að hún hafi það í huga að við ættum alltaf að stefna að því að hafa bestu mögulegu löggjöf á þessu sviði, hvort heldur það kemur að vernd persónuupplýsinga og réttarfari þeirra sem nota þetta hagkerfi — sem eru allir þegar ég fór síðast í banka. Í raun og veru er allt okkar líf hýst núna í einhverjum skýjum og við höfum ákaflega lítið að segja um það hvernig meðferðin á þessu stafræna sjálfi okkar er. Það er eitthvað sem verður að taka tillit til í þessari vinnu.

Ég fagna því að hér sé lagt til að IMMI fái fulltrúa í þessari nefnd eða stýrihópi. Það verður ákaflega sterkur og örugglega mjög frjór stýrihópur og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu. Við erum á réttri leið ef við nýtum okkur það hugvit sem hér er og hrekjum það ekki frá okkur heldur höldum því í fanginu á okkur, sem þetta mun vissulega gefa okkur tækifæri til að gera.