144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[16:40]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi stýrihópinn. Ástæðan fyrir því að í þingsályktunartillögunni er kallað eftir því að stýrihópur eða starfshópur sé valinn í ráðuneytinu, sem hagsmunaaðilar sem þurfa að koma að borðinu skipa, er sú að bæði McKinsey og Boston Consulting Group, þessi alþjóðlegu ráðgjafarfyrirtæki, benda ríkisstjórnum á að það verði stöðugt að endurskoða hvað hefur reynst best því að það breytist eins og hv. þingmaður nefndi með Kanada. Ef menn uppfæra ekki þessa hluti þá heltast þeir mjög fljótt úr lestinni þannig að það verður að vera stöðug endurskoðun á því hvað reynist best hverju sinni. Það breytist á morgun, það breytist á næsta ári.

Hvernig getum við innleitt það varðandi lagalegan og reglugerðarlegan raunveruleika á Íslandi og styrkleika landsins, og að sjálfsögðu veikleika líka? Það verður að taka tillit til þess alls.

Varðandi gagnaversiðnaðinn eru ofboðslega margir kostir hérna til uppbyggingar gagnaversiðnaðar. Hann mun styðja við uppbyggingu tæknifyrirtækja sem þarf að þjónusta. En það eru líka veikleikar, eins og eldgos. Þetta er svo erfitt, þegar ég fór hringinn og talaði við þessa aðila þá næstum því knésetti þetta svolítið málið í fæðingu. Það var mjög erfitt fyrir gagnaversiðnaðinn þegar Eyjafjallajökull gaus. Það var svo erfitt að sannfæra stóru erlendu aðila sem margir hverjir eru komnir hingað — ég meina BMW er komið hingað — um að koma til Íslands. Hvað ætlarðu að segja? Nei, nei, hafðu engar áhyggjur þó að það sé eldgos hérna, þetta er eldfjallaeyja, hafðu engar áhyggjur af því — við erum með næstbesta raforkuöryggi í heimi vegna þess að við þurfum að þjónusta álver sem mega ekki stoppa. Hafðu engar áhyggjur! Maður fær ekki tíma til þess að segja svona hluti. Svona fyrirtæki fara yfir ofboðslega ítarlegan tékklista og ef þau finna eitthvað að þá strika þau bara landið út. Þess vegna er svo mikilvægt að lagaumhverfið og reglugerðarumhverfið setji ekki aukahindranir. Það þarf að gera ýmislegt til að auðvelda þessu að vaxa.