144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[16:44]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi friðhelgi einkalífsins og upplýsingatækni þá var grein í The Economist um það hvað uppljóstranir Snowdens kostuðu bandarísk tæknifyrirtæki. Ég man ekki í svipinn hvað það var mikið, ég reiknaði það, ég man ekki hvort það voru íslensk fjárlög einu sinni, tvisvar eða þrisvar. Þetta eru alla vega gríðarlega stórar upphæðir vegna þess að þetta eru töpuð viðskipti. Það verður að horfa til þessara þátta líka, réttindaverndar netnotenda, eins og kemur fram í skýrslu frá alþjóðafyrirækjum og World Economic Forum. Ef þeir eru ekki skýrir þá kostar það glötuð tækifæri. Eins og ég nefndi var það reiknað út í The Economist hvað það kostaði í þessu tilfelli. Þeir hlutir verða líka að vera skýrir.

Svo er ofboðslega mikið af jákvæðum hagnýtingaráhrifum af þessu. Þetta er ekki bara spurning um hagvaxtaráhrifin, sem ég nefndi hérna fyrr, sem eru gríðarleg. Þegar skýrslan var gefin út hjá McKinsey 2012 voru 20% af þeim hagvexti til komin vegna internetsins. Þetta eru rosalegar tölur. Það eru alls konar hagnýtingaráhrif af þessu eins og var nefnt hérna í ræðu hv. þm. Bjarkeyjar Gunnarsdóttur varðandi heilsugæslu. Við erum að fara inn í tíma þar sem hægt er að nota þessa upplýsingatækni, læknar geta notað hana til þess að aðstoða sig við að meta alls konar hluti, hvernig lyf virka og krossvirka og virka ekki saman, alls kona einkenni o.s.frv. Í þessu tilliti getur læknirinn aldrei verið jafn uppfræddur um þessa hluti og risastórt upplýsingatæknikerfi sem hann nýtir sér til aðstoðar. Þetta er síðan hægt að gera yfir internetið, yfir landshluta.

Atvinnuuppbygging. Þetta þýðir að fólk getur staðsett fyrirtæki eins og á Egilsstöðum, Píratar fóru og heimsóttu eitt fyrirtæki þar, þar sem menn geta verið í héraði, heima hjá sér (Forseti hringir.) og þurfa ekki að flytja til Reykjavíkur út af því að þeir geta stofnað sín eigin fyrirtæki. Það eru ofboðslega mörg frábær, ótrúleg tækifæri vegna (Forseti hringir.) þeirrar byltingar sem internetið og upplýsingatæknin er. Þetta er tæknibylting.