144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[16:50]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu okkar þingmanna Samfylkingarinnar til þingsályktunar um bráðaaðgerðir í byggðamálum. Við leggjum þessar tillögur fram vegna þess að við teljum að alvarlegt ástand hafi skapast sem kalli á tafarlausan stuðning við atvinnuþróun, menntun, velferðarþjónustu og uppbyggingu innviða í landsbyggðunum. Að sumu leyti er hér um að ræða hugmyndir sem byggja á tillögum og aðgerðum sem við höfum áður unnið eftir í tíð síðustu ríkisstjórnar, en að sumu leyti er hér um að ræða nýmæli. Þetta eru ellefu greindar tillögur og sem framsögumaður hef ég 15 mínútur þannig að óhjákvæmilegt er að ég hlaupi á nokkru hundavaði yfir einstaka þætti í framsöguræðunni.

Í fyrsta lagi leggjum við til að snúið verði af þeirri öfugþróun sem ríkisstjórnin markaði hér í upphafi setu sinnar að draga úr þróttinum að baki sóknaráætlunum landshluta. Í sóknaráætlun 20/20 var gert ráð fyrir að einstakir landshlutar mundu fá vaxandi áhrif á útdeilingu fjármuna á viðkomandi svæðum og að það yrði meiri samfella í opinberum áætlunum — samgönguáætlun, byggðaáætlun og fjarskiptaáætlun — til þess að tryggja atvinnuþróun og velferð á viðkomandi svæðum.

Við leggjum í annan stað til að aukin verði framlög til samgöngumála, sem voru skorin niður við samþykkt fjárlaga fyrir árið 2014, til samræmis við fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar um vega- og jarðgangagerð og til að hægt sé að standa við samninga um eflingu almenningssamgangna milli ríkis og sveitarfélaga.

Þeirri ríkisstjórn sem nú situr lá svo á að kasta sandi í hjól atvinnulífsins að þegar hún tók við var það einstök heppni að undirbúningur Norðfjarðarganga var kominn nógu langt til þess að ekki varð við snúið. Yfirlýsingar stjórnvalda og formanns fjárlaganefndar í upphafi stjórnartíðarinnar féllu allar í þá átt að það ætti að reyna að stöðva þessa framkvæmd. Blessunarlega var hún komin af stað þannig að ekki varð við snúið. Það skiptir máli að halda áfram í jarðgangagerð. Það er enginn þáttur sem skiptir jafn miklu máli og samgöngubætur vítt og breitt um landið til að styðja við atvinnuþróun í landsbyggðunum, bæta velferðarþjónustu og auka vöxt nýrra atvinnugreina eins og ferðaþjónustu.

Í þriðja lagi leggjum við til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggi fyrir Alþingi sem fyrst frumvarp um breytingu á lögum um veiðigjöld, sem tryggi sjávarbyggðum hlutdeild í tekjum af sérstöku veiðigjaldi. Þetta er samstofna máli sem við fluttum hér þrír þingmenn Samfylkingarinnar, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, Kristján Möller og Guðbjartur Hannesson, á liðnu þingi og er í samræmi við þá stefnumörkun Samfylkingarinnar að mikilvægt sé í ljósi eðlis kvótakerfisins, þeirra tilfærslna sem óhjákvæmilega leiða af kvótakerfinu og framsali veiðiheimilda, að tekjur af sérstöku veiðigjaldi renni til sjávarbyggðanna til að mæta kostnaði þeirra af þessu kerfi. Ef það á að myndast samfélagsleg sátt um kvótakerfið sem felur í sér framsalsmöguleika á veiðiheimildum verður líka að tryggja sjávarbyggðunum hlutdeild í því.

Atburðir síðustu missira hafa síðan ítrekað enn mikilvægi þessarar hugmyndar þegar við sjáum afleiðingarnar á Djúpavogi af því að Vísir hefur farið með allar veiðiheimildirnar þaðan. Við sjáum afleiðingarnar jafnvel á stærri og stöndugri stað eins og Húsavík af breytingunum þegar Vísir fer með þaðan 66 störf. Það er talið að um 40 manns séu þegar fluttir burt frá Húsavík. Það er sem sagt orðin sú staða á Húsavík að þegar fyrsti áfangi kísilvers á Bakka verður fullbúinn, af því að við vonumst nú til þess að enginn vafi verði á því að uppbygging á því hefjist, mun hann ekki duga til annars en að gera Húsvíkinga eins setta og þeir voru áður en Vísir ákvað að fara með störfin burt. Að því leyti sýnir þetta dæmi sýnir betur en nokkuð annað hversu viðkvæmri stöðu byggðir eru í, jafnvel þær sem hafa þó nokkrum öðrum stoðum að standa á eins og Húsavík, gagnvart tilviljanakenndum, skyndilegum og fyrirvaralausum ákvörðunum kvótaeigenda í núverandi kerfi.

Virðulegi forseti. Við leggjum líka til í fjórða lagi að lögð verði fram lög um ívilnanir til nýfjárfestinga. Ríkisstjórnin lét löggjöfina sem í gildi var renna út um síðustu áramót. Það er ánægjulegt að sjá á þingmálalista ríkisstjórnarinnar nú að nýtt frumvarp um rammalöggjöf um ívilnanir eigi að koma fram á þessu þingi.

Í fimmta lagi leggjum við til að iðnaðar- og viðskiptaráðherra verði falið að leggja fram frumvarp um jöfnun húshitunarkostnaðar sem feli í sér að jöfnunargjald verði lagt á alla notendur raforku, þar á meðal stóriðju og aðra stórnotendur. Hæstv. iðnaðarráðherra lagði fram í vetur frumvarp um jöfnunargjald sem var hins vegar því marki brennt að það átti að leggja á almenning á þéttbýlisstöðum gjald til að jafna raforkukostnaðinn. Undanskildir voru stórnotendurnir og stóriðjan. Það liggur fyrir þverpólitísk stefnumörkun frá síðasta kjörtímabili með aðkomu allra flokka um jöfnunargjald þar sem allir leggja af mörkum, líka stórnotendur og stóriðjan. Við teljum engin efnisrök fyrir því að undanskilja stóriðjuna. Það skiptir máli að hún leggi af mörkum eins og aðrir notendur raforku að þessu leyti.

Í sjötta lagi leggjum við til að Íbúðalánasjóði verði gert að koma ónýttu húsnæði án tafar í not á þeim svæðum þar sem eftirspurn eftir húsnæði er umfram framboð. Í því skyni verði opnað fyrir nýja möguleika, þar með talið að sveitarfélög yfirtaki húsnæði.

Eins og kunnugt er hefur Íbúðalánasjóður sett á fót leigufélagið Klett, en það gengur gríðarlega hægt að koma í not húsnæði Íbúðalánasjóðs víða um land. Á ferðum mínum um landið hef ég fundið að þetta er umkvörtunarefni og vandamál nokkurn veginn hvert sem maður fer. Maður sér þetta út um allt Norðausturland þar sem ég hef fengið athugasemdir um þetta á ferðum mínum þar núna. Á norðanverðu Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum er þetta vandamál líka. Það þarf ekki að fara lengra en upp á Akranes þar sem miðbærinn er eiginlega í niðurníðslu vegna fjöldamargra húsa sem Íbúðalánasjóður hefur forsjá yfir og sinnir ekki eða hirðir ekki nægjanlega um. Þá er auðvitað ótalinn vandinn á Suðurnesjum.

Ég tel að þarna þurfi meira átak. Það hefur auðvitað verið einhver tilhneiging hjá Íbúðalánasjóði að tregðast við því að setja þessar íbúðir út á markað til að halda aftur af fasteignaverði, en það verður að finna leiðir til að koma þessum íbúðum út. Ég varð þess áskynja á ferðum mínum um Norðausturland nýverið að t.d. bæjaryfirvöld á Fljótsdalshéraði hafa náð að tappa dálítið af þeim íbúðastokki sem þar var ónýttur með kaupum frá Íbúðalánasjóði á íbúðum sem nú nýtast fyrir félagslegar þarfir. Það er vel. Með þeim hætti þarf að nálgast þetta mál. Það er ekki hægt að bíða lengur. Þetta er auðvitað mjög sorglegt og stendur atvinnuþróun fyrir þrifum. Í ýmsum sveitarfélögum er ekkert annað húsnæði laust. Þannig að fólk sem kemur vegna nýrra atvinnutækifæra á einskis annars úrkosti og hættir jafnvel við að koma vegna þess að það fær ekki aðgang að því húsnæði sem fyrir er laust.

Í sjöunda lagi gerum við ráð fyrir að iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggi fram frumvarp til að tryggja sveitarfélögunum vítt og breitt um landið hlutdeild í þeim tekjum sem ferðamenn sem koma til landsins skapa, til að nýta í frekari fjárfestingar, uppbyggingu ferðamannastaða og segla sem geta dregið að ferðamenn vítt og breitt um landið. Það hefur satt að segja verið sárgrætilegt að fylgjast með þeirri löngu sögu glataðra tækifæra og klúðurs sem hefur einkennt aðkomu þessarar ríkisstjórnar að gjaldtöku af ferðamönnum, allt frá því hún ákvað í hendingskasti að hætta við eðlilega hækkun á virðisaukaskatti á gistinætur yfir í það furðulega náttúrupassaævintýri sem hæstv. iðnaðarráðherra talar um alla daga en kemst aldrei í að hrinda í framkvæmd. Fyrir vikið er upplausnarástand í ferðaþjónustunni. Það er mikilvægt að tryggja heimamönnum á hverjum stað hlutdeild í tekjum af ferðamönnum af því að þeir vita best hvar tækifærin eru sem hægt væri að byggja upp.

Í áttunda lagi leggjum við til uppbyggingu í háhraðatengingum. Það væri hægt að halda hér sérstaka ræðu um það vandamál sem það er fyrir atvinnuþróun í landsbyggðunum hversu hægt netið er víða. Á norðanverðu Snæfellsnesi eru sjávarútvegsfyrirtæki sem treysta á útflutning á ferskfiski sem komast ekki í samband við markaðina heilu og hálfu dagana. Við erum með framhaldsskóla í Grundarfirði sem byggir á notkun á neti og fjarskiptum en þarf að taka tölvurnar af nemendunum þegar þeir koma í skólann því netið þolir ekki að nemendurnir séu með tölvurnar og símana opna í einu. Ekkert sýnir betur hversu öfugsnúið ástandið er þegar við erum með skóla sem byggir á notkun á fjarskiptatækni en hann getur ekki nýtt sér fjarskiptatæknina vegna þess að það er ekkert háhraðanet í boði. Þessi skóli er að reyna að þjóna sunnanverðum Vestfjörðum. Það er ómögulegt með núverandi tengingu. Svona má taka dæmi víðs vegar af landinu.

Við vitum hvernig þetta fer með búreikninga í landbúnaði þar sem sífellt ríkari kröfur eru orðnar um góðar tengingar og þar fyrir utan er það orðið sjálfstætt vandamál að fólk veigrar sér við að flytja burt þaðan sem er almennilegur aðgangur að upplýsingum og afþreyingu yfir netið ef það flytur út á land. Það veigrar sér við að missa af þessum aðgangi. Það er mjög eðlilegt. Þess vegna er brýnt að tryggja sambærilegan aðgang vítt og breitt um landið. Það er forsenda þess að fólk eigi kost á að velja sér búsetu vítt og breitt um landið.

Í níunda lagi er það afhendingaröryggi og flutningsgeta raforku. Það er annað vandamál. Það þekkja allir ástandið á Vestfjörðum þar sem afhendingaröryggið er lélegt. Flutningsgetan er léleg líka. Hún er líka léleg á Norðausturlandi. Á Þórshöfn er til dæmis verið að keyra bræðslu með olíu sem er fullkomlega óboðlegt ástand. Flutningsgetan inn á Fljótsdalshéraðssvæðið, Vopnafjörð og Þórshöfn er svo lítil að hún þolir ekki frekari uppbyggingu atvinnulífs þar.

Allt tengist þetta líka hringtengingu ljósleiðarans sem er grundvallaratriði til að tryggja fullnægjandi gagnaflutningsgetu. Fjárfestingar í háhraðatengingum og fullnægjandi raforkudreifingu og raforkuöryggi er grundvallaratriði fyrir alvörubúsetumöguleika í landinu.

Í tíunda lagi leggjum við til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem er byggðaráðherrann í þessari ríkisstjórn, fái það verkefni að efla kerfi jöfnunar flutningskostnaðar sem við komum á í okkar ríkisstjórnartíð á síðasta kjörtímabili og vorum afar stolt af, þannig að það nái líka til verslunar.

Í síðasta lagi vil ég nefna grunnþjónustu í mennta- og heilbrigðiskerfinu og fullnægjandi fé verði veitt til að gera hana aðgengilega. Ég held við séum komin á mjög hættulega braut þar. Ég hef tekið hér dæmi af því að í nýrri og sameinaðri Heilbrigðisstofnun Austurlands er verið að skera niður, stöðugt að klípa af starfshlutfalli hjúkrunarfræðinga. Á Borgarfirði eystra er starfshlutfall hjúkrunarfræðings komið niður í 40%, á Vopnafirði er það komið niður í 60.

Við sjáum síðan að áfram er haldið án nokkurrar þarfagreiningar eða markmiðsgreininga fyrir fram með sameiningaráform sem eru í fullkominni ósátt við fólk á viðkomandi stöðum. Hættan er auðvitað sú að það sé bara verið að leggja niður örfá háskólamenntuð þjónustustörf og það hafi raunverulega engin önnur efnisleg áhrif til góðs. Það þýðir að við sitjum eftir með verri þjónustu, ákvarðanirnar færast fjær fólki. Við getum séð jafnvel mikla öfugþróun í samtvinnun heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu eins og við höfum séð mjög farsæla framkvæmd á á Akureyri undanfarna áratugi þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra ætlar nú að snúa klukkunni við í sínum gamla heimabæ.

Ég held að það sé full ástæða til þess að við hugsum það í alvöru hversu langt er hægt að ganga fram á forsendum excel-skjalsins í stefnumörkun varðandi þessa grundvallarþætti velferðar, menntunar og heilbrigðisþjónustu víða um land. Við verðum (Forseti hringir.) að átta okkur á því að það eru takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga einungis á peningalegum forsendum.