144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[17:10]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil vel góðan hug þingmannsins og meðflutningsmanna hans. Nú háttar svo til að ég á minn uppruna í tveimur sveitarfélögum; önnur sveitin er fullkomlega í auðn, í hinni er blómlegt atvinnulíf. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort hægt hefði verið að halda byggð í sveit móður minnar. Ég held nú að þessi tillaga hefði ekki getað gert það. Ég held líka að endalaus jöfnun héðan frá Alþingi skili engu þegar upp er staðið.

Jöfnun er í eðli sínu skattlagning á einhverja, það er einhver sem borgar. Með jöfnun kann að vera að lífvænlegum atvinnugreinum verði ekki búnar þær aðstæður að þær geti starfað. Endalaus verðjöfnun á raforku, það kann að vera að það endi með því að það vilji enginn kaupa raforkuna nema þeir sem eru neyddir til þess til að laga matinn sinn. Þetta er bara svona hugleiðing.

En eins og ég segi er ég búinn að fylgjast með í landsmálum frá 1960. Þetta hefur verið til umfjöllunar allar götur síðan. Mér finnst engu að síður bráðfyndið að ári eftir að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fór frá völdum þurfi bráðaaðgerðir í byggðamálum.

Ég hef lokið máli mínu.