144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Það er gott að stjórnarþingmenn komi hér og virði okkur þess að ræða efnislega við okkur um þessi mál.

Mig langar að rekja áfram það sem hv. þingmaður var að ræða sérstaklega varðandi sameiningu heilbrigðisstofnana því þetta er orðið mér nokkuð áhyggjuefni eftir samræður við heimamenn vítt og breitt um land. Ég hef af því áhyggjur að menn ofmeti ávinninginn af þessum sameiningum og vanmeti hið samfélagslega tjón sem af þeim er. Ég held að þessar sameiningar bjóði heim þeirri hættu að menn finni reikningslega boðlega niðurstöðu sem er hins vegar ekki boðleg hvort sem er út frá afkomu fólks, öryggi þess eða bara velferð fólks og vellíðunartilfinningu. Ég þreytist ekki á að taka dæmið af hjúkrunarfræðingnum á Borgarfirði eystra sem búið er hægt og rólega að skera niður og á núna að minnka úr 60% í 40%. Það er manneskja sem sinnir þessu verki. Hún á sem sagt núna að vinna á 40% hjúkrunarfræðingskaupi. Eftir stendur að hún er eini heilbrigðisstarfsmaðurinn á Borgarfirði eystra. Það gerist oft að það er ófært. Þá er hún augu og eyru lækna á staðnum.

Ég verð að segja eins og er að ég óttast að þessi sameiningarárátta valdi því að menn geti fundið út að það borgi sig að minnka eitthvert starfshlutfall um 20% og svo hugsi þeir: Á næsta ári fáum við kannski engan til að gegna þessu 40% starfi, þá getum við lagt það niður og þá eigum við fyrir sparnaðinum. Ég óttast að menn vanmeti algerlega að það þurfi að vera einhver lágmarksviðbúnaður í jaðarbyggðum.

Af því hv. þingmaður rakti (Forseti hringir.) þessi sjónarmið um jaðarbyggðirnar við sameiningu heilbrigðisumdæmanna á Austurlandi, hvernig líst honum á þessa hugsun?