144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[17:55]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka flutningsmanni fyrir þetta andsvar.

Mig langar í upphafi að bæta við upplýsingum, bæta við þankaganginn hjá flutningsmanni. Árið 1998 bjuggu 485 manns á Raufarhöfn. Kvótinn er seldur og í dag búa þar núna 162. Það er ástæða fyrir því að þetta er svona. Þarna birtist kannski hin hryllilega mynd kvótakerfisins, það má kannski segja það.

Í skýrslu sem fjármálaráðuneytið gaf út um sameiningu ríkisstofnana í desember 2008 kemur fram að erlendar rannsóknir bendi til þess að sameiningar skili sjaldnast þeim árangri sem vonast er eftir, eða í undir 15% tilfella. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Það er að markmið og framtíðarsýn eru ekki nógu skýr. Ég held að við séum sammála um það sem hér erum inni að það er bara ekki þannig. Fjárhagsleg samlegð er ofmetin. Já, hún er það í þessu tilfelli. Undirbúningi og skipulagningu áfátt. Já. Sannarlega er undirbúningi og skipulagningu áfátt vegna þess að heilbrigðisstarfsfólk hefur ítrekað kallað eftir svörum frá ráðherra en fær engin svör. Og svo áfram: Ekki hefur tekist að kveikja nægan áhuga á sameiningunni. Ég held að enginn innan Heilbrigðisstofnunar Norðurlands hafi áhuga á þessari sameiningu. Nei, það skal keyra hana í gegn vegna þess að hæstv. ráðherra, Kristján Þór Júlíussyni tókst það sem engum heilbrigðisráðherra hefur tekist, hann tók pappírana úr skúffunni sem hafa legið þar í tíu ár, hann ætlar að keyra þetta í gegn því hann getur það.