144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[17:59]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að heilbrigðiskerfið í heild sinni þarfnist ákveðinnar endurskoðunar. Við sáum það í fréttum síðast í gær að 66 læknar flytja frá Íslandi á hverju ári. Það segir okkur að einhver vandi er til staðar.

Þingmaðurinn spurði um kostnaðarauka. Ég held að það sé sjálfgefið þegar sameinaðar eru stofnanir í stofnun sem nær yfir 390 kílómetra, Blönduós, Þórshöfn, það hlýtur að vera einhver akstur í því. Þetta er svipað eins og við ætluðum að sameina stofnanir í Reykjavík og á Akureyri í eina stofnun. Einhver kostnaður hlýtur að vera í þessu.

Þingmaðurinn spurði um samlegð, hvort ég hefði einhvers staðar séð áætlanir um það. Nei, um það hef ég einmitt spurt heilbrigðisráðherra undanfarna mánuði. Hann getur bara ekki svarað því. Ég held að það sé vandinn, hann getur það ekki, ætlar samt að gera þetta, vísar í fjárlögin og fjárlögin vísa á heilbrigðisráðherrann. Það getur enginn svarað þessu. Það getur enginn svarað því hvar þessi samlegð er. Enginn.