144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[18:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem mér fannst ágæt og málefnaleg. Hv. þingmaður nefnir að ekki sé mikið rætt um það þegar störf fara af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins en svo þegar störf fara frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar verður allt brjálað.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig honum lítist á byggðastefnuna sem birtist í þeirri menntastefnu sem hv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram, sem lýtur að því að hefta aðgang að framhaldsskóla. Þar mun nemendum fækka í skólanum en um leið fækkar starfsfólki. Stærðargráðan á þessum takmörkunum sem kynntar eru í fjárlagafrumvarpinu, þetta eru 916 ársnemendur sem er næstum því á pari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem er skóli Suðurnesjamanna og þjónar rúmlega 20 þúsund manna svæði. Í þeim skóla starfa rétt rúmlega 90 starfsmenn. Auðvitað fækkar þeim ekki öllum úti á landi, þetta dreifist um landið.

Samkvæmt þessari áætlun hæstv. ráðherra er fækkun núna, síðan aftur næsta ár og þarnæsta ár og svo enn meiri fækkun þegar styttingin á námstíma til stúdentsprófs dettur inn. Hver álítur hv. þingmaður að áhrifin verði af þessu á opinbera starfsmenn og störf úti á landi?