144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[18:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ein mikilvægasta auðlindin og fjárfestingin er fjárfesting í menntun ungmenna á svæðinu. Það er menntunarstig svæðisins sem eykur hagvöxt. Fyrir því er hægt að færa rök.

En þær aðgerðir sem er núna verið að stuðla að koma niður á landsbyggðinni, ekki aðeins er takmarkað aðgengi heldur bitnar niðurskurðurinn harkalegast á þeim skólum sem hafa haldið úti fjarkennslu. Þessir skólar hafa einmitt verið að þjóna eldri framhaldsskólanemendum úti um landið sem hafa viljað auka við menntun sína og vera á svæðinu, vilja ekki flytja af svæðinu heldur vera í heimabyggð og nýta sér fjarkennslu. Þetta á að takmarka með þessari nýju mennta- og byggðastefnu.

Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort hann sem stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar hyggist ekki mótmæla því harðlega og koma með einhverjar tillögur til þess að draga úr áhrifum þessarar slæmu stefnu?