144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[18:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef sjálfur setið í sveitarstjórn og veit það að sveitarfélögum ferst það sérstaklega vel úr hendi að eyða hverri þeirri krónu sem þau mögulega geta. Ég ímynda mér að með stækkun sveitarfélaga, alveg eins og með samvinnu á ýmsum sviðum milli þeirra, mundi skapast töluvert hagræði sem mundi auka svigrúm sveitarfélaga og væntanlega yrði því eytt þá í annan þarfan starfa, t.d. á sviði menntamála.

Ef ég má gefa hv. þingmanni dæmi um það hvernig ég mundi vilja sjá stórt sveitarfélag þá er ég þeirrar skoðunar að t.d. Eyþingssvæðið allt, frá Eyjafirði og austur á Þórshöfn, ætti að verða eitt sveitarfélag. Ég er viss um að það mundi auka möguleika barna í smærri sveitarfélögum til að standa jafnfætis öðrum um menntun.

Síðan vil ég segja það í fullum trúnaði við hv. þingmann að það kemur mér ekki á óvart að mér takist ekki að ganga fram af henni í máli mínu. Mér sýnist að það sé ómögulegt að ganga fram af hv. þingmönnum Framsóknarflokksins þessa síðustu og verstu daga.